Fiskur með sveppum og blaðlaukSötrað & snætt í sælunni - Olga Hrund - Lestrar 2008 - Athugasemdir (2)
Ég verð víst að viðurkenna að ég stend mig mjög illa í pistlaskrifum hér í sötrað og snætt og svo að þið vitið það þá er bróðir minn löngu búinn að gefast upp á mér og reka mig. En ég er ennþá með aðgangsorð og ég kalla þetta ennþá minn dálk svo nú ætla ég að reyna að bæta mig og byrja að skrifa hér aftur stutta pistla með uppskriftum sem mig langar til að deila með ykkur.
Eftir frábært sumar og ekki síðra haust er kominn vetur og ég veit ekki með ykkur en ég er eiginlega að komast í svolítið jólastuð. Mér finnst aðdragandi jólanna og aðventan yndislegur tími og gaman að eiga þá góðar stundir með vinum og vandamönnum yfir góðum mat og drykk.
Í gær langaði mig allt í einu eitthvað svo mikið í sveppi og keypti mér eitt box af sveppum en var ekki búin að ákveða hvað ég ætlaði að gera úr þeim. Núna áðan rakst ég svo á þessa uppskrift hér fyrir neðan á þessu skemmtilega bloggi http://ljufmeti.com/ og fannst hún alveg kjörin fyrir sveppina mína. Einföld og girnileg – hér kemur uppskriftin:
Fiskréttur með blaðlauk og sveppum (uppskrift frá mömmu)
- 6-800 g ýsa eða þorskur
- 1 góður blaðlaukur
- 250 g sveppir (1 box)
- 1 bolli rifinn ostur
- 2,5 dl rjómi eða matreiðslurjómi
- 2 msk sveppasmurostur (má sleppa en ég bætti við og notaði 4-5 msk)
- ½ - 1 sítróna
- 1-1½ tsk aromat
Kreistið sítrónu yfir fiskflökin og kryddið með aromatkryddinu. Látið standa um stund.
Skerið fiskinn í bita og raðið í eldfast mót. Sneiðið blaðlaukinn og mýkið í olíu á pönnu, takið af og steikið sveppina í smá stund. Hellið þá rjómanum yfir, setjið rifna ostinn út í ásamt sveppasmurostinum og látið sjóða þar til hann er bráðinn. Bætið loks blaðlauknum á pönnuna og kryddið með aromatkryddi eftir smekk. Hellið þessu síðan yfir fiskinn og bakið við 190° í 15-20 mínútur.
Verði ykkur að góðu!
Það er gaman að lesa þessa pistla þína
Þannig að ég vona að þú haldir áfram að nota aðgangsorðið þitt á meðan þú getur.