Ţakkargjörđarhátíđ 2010

“Ef ég á ađ lýsa Ţakkargjörđarhátíđinni hér í Kaliforníu í einni setningu ţá fer dagurinn ţannig fram ađ viđ eldum frá morgni til kvölds og étum svo

Ţakkargjörđarhátíđ 2010
Sötrađ & snćtt í sćlunni - Hafţór Hreiđarsson - Lestrar 1571 - Athugasemdir (0)

... ţetta er Agnes sem talar frá LA.
... ţetta er Agnes sem talar frá LA.
“Ef ég á að lýsa Þakkargjörðarhátíðinni hér í Kaliforníu í einni setningu þá fer dagurinn þannig fram að við eldum frá morgni til kvölds og étum svo yfir okkur.” Segir Agnes Ýr Guðmundsdóttir, vinkona mín, sem býr í Los Angeles þar sem hún er við nám í arkitektúr.

Þar sem Þakkargjörðarhátíðin var í síðustu viku fannst mér tilvalið að fá Agnesi til að lýsa þessari miklu átveislu Bandaríkjamanna fyrir okkur og jafnvel koma með nokkrar uppskriftir handa okkur Húsvíkingunum.

Agnes segir að það séu nokkrir fastir liðir í tilverunni þegar komi að Þakkargjörðarmáltíðinni. Að sjálfsögðu er þar kalkúnn í fyrirrúmi og svo séu einnig sætar kartöflur, makkarónur og ostur, graskersbaka og fleira. Hjá tengdafjölskyldu Agnesar er hefð fyrir því að bjóða upp á eina til tvær gerðir af kjöti auk kalkúnsins og í ár varð lambalæri fyrir valinu. Það var látið hægeldast á grilli í eina 6 klukkutíma, með mesquite kolum og eikarkubbum, innpakkað í álpappír með fersku timian beint úr garðinum og salti og pipar.  Þetta var ekkert venjulegt lamb því það var keypt beint frá bónda, sem lofaði að það hefði verið mjög hamingjusamt og lífrænt í sínu stutta lífi - og það skilaði sér, segir Agnes, því kjötið var einstaklega meyrt og gott og sló í gegn hjá stórfjölskyldunni.

Ég gef Agnesi orðið: "Dagurinn fer annars í það að gera klárt fyrir matinn, leggja á borð og setja stemninguna fyrir kvöldið. Við vorum með Prosecco frá norður Ítalíu sem fór í kælinn ásamt sænsku óáfengu „cider“ og trönuberjasafa. Tónlistin kom nú bara að þessu sinni úr útvarpinu og það var sennilega eitthvað hátíðarsett frá klassísku stöðinni. Tengdamamma stóð vaktina í eldhúsinu frá morgni og bakaði ostaköku og undirbjó meðlæti og kalkún, yngri mágkonan bakaði graskersböku, kornbrauð og ferskjupæ og ég endaði svo vaktina á að elda eitthvað af meðlæti í viðbót.  Á meðan hljóp eldri mágkonan um garðinn og tíndi tómata og jurtir og tendraði eld í arninum. Hún kvartaði svo yfir því að ég hefði ekki planað að gera rauðkál eins og síðast, og ákváðum við á staðnum að frá og með 2011 yrði það partur af hefðinni. Tengdapabbi var eitthvað að bauka í garðinum og bílskúrnum, en kom svo inn að fylgjast með kvenfólkinu við eldhússtörfin, en hann kemur ekki nálægt eldavélinni eins og fleiri karlar sem ég þekki. En talandi um að troða svolítið inn íslenskum matarhefðum þá verð ég að koma því að, að tengdafólkið mitt er alveg vitlaust í laufabrauð, harðfisk, íslenskt smjör, flatbrauð og hangikjöt - já og lýsi, svo fátt eitt sé nefnt. Þetta árið fengum við föðurbróður Jesse (kærasta míns)  og fjölskyldu í heimsókn og vorum því 9 manns umhverfis borðið. Tengdamamma fór með þakkarbæn, og venjulega er orðið látið ganga og hver og einn segir frá því fyrir hvað viðkomandi er þakklátur – en núna með fimm ára snáða var farið fljótlega með eina bæn og svo sest að snæðingi áður en þolinmæðina þryti. Ég myndi segja að þetta væri ekki beint svona gourmet máltíð því að aðalmálið er að rífa í sig og reyna að smakka allar sortir og lítið er hugað að framsetningu, það er meira svona hlaðborðsstíll á þessu. Myndirnar eru því ekkert sérstaklega góðar heldur enda vorum við að flýta okkur að byrja að borða, og þar sem allt meðlætið þarf að berast fram heitt á sama tíma gefst enginn tími í framsetningu og skreytingar. Við drukkum vín frá Sonoma vínhéraðinu sem við heimsóttum rúmri viku fyrir þakkargjörð, Zinfandel vín frá Quivira. Það bragðaðist mjög vel en ég efast um að það fáist í vínbúðum á Íslandi enda lítið fyrirtæki þar á ferð og margir vínframleiðiendur í Napa og Sonoma selja aðallega í gegn um vínklúbba sína, til veitingastaða og svo til þeirra gesta sem leggja leið sína í heimsókn og smakk á búgarðinn. Eftir matinn er svo iðulega setið við spjall og/eða lagst á meltuna við góða bíómynd. Þetta er ógurlega huggulegur dagur sem snýst algjörlega um mat, enda verið að halda upp á það að indíánarnir gáfu pílagrímunum að borða þegar þeir voru að farast úr hor og kunnu ekki að veiða sér til matar."

Ég veit ekki alveg hvernig er að nálgast grasker hér á Húsavík um þessar mundir en ég man að ég sá þau um daginn í kringum Hrekkjavökuna og svo er kannski hægt að kaupa þau niðursoðin hér. Persónulega finnst mér grasker og allt graskers hreint og beint vont þannig að sumar uppskriftirnar hér heilla mig alls ekki. En sem betur fer eru ekki allir með sama smekk, og þótt ég geti ekki gleymt hversu vont mér fannst graskers pastað sem ég fékk á aðfangadagskvöld í Róm árið 1996, þá getur bara vel verið að þið fílið grasker og uppskriftir sem innihalda grasker. Margir eru með kalkún í kringum hátíðirnar og því er alveg kjörið að prófa ekta ameríska fyllingu þetta árið og ekki er nú líklega verra að hafa trönuberjasósu með herlegheitunum. Þannig að ég vona að þið prófið eitthvað af þessum uppskriftum sem Agnes var svo góð að senda mér til að deila með ykkur.Graskerssúpa með valhnetum

fyrir 6

4 stórir skallottulaukar, saxaðir
1 meðalstór gulrót, söxuð
1 sellerístilkur, saxaður
2 vel þroskaðir tómatar (eða 1 dós niðursoðnir, ekki nota safann)
3 stórar blóðbergsgreinar, eða timian
1 lárviðarlauf
2 msk extra virgin ólífuolía
700g graskerskjöt í teningum (ég notaði helming grasker og helming smjörhnetu skvass)
5 bollar vatn
¼ tsk múskat
12 valhnetur, saxaðar (eða bara eftir smekk)

Svissa fyrst skallottulauk, gulrót, sellerí, timian og lárviðarlauf í ólífuolíunni á meðalhita þar til allt er orðið mjúkt. Bætið skvassi og graskeri, vatni, múskat, 1tsk salti og ¼ tsk pipar og látið eldast undir loki þar til graskerið er orðið mjög mjúkt, 20-25mínútur. Takið timiangreinar og lárviðarlauf frá og skellið súpunni í blandarann. Ef súpan er of þykk má setja soðið vatn, og auðvitað bæta salti og pipar eftir smekk og berið fram með söxuðu valhnetunum (og þeyttum rjóma ef vill).Þakkargjörðarkalkúnninn 2010 hjá Flores fjölskyldunni

Fylling í 12 manna kalkún


1 súrdeigsbrauðhleifur skorinn í 1cm teninga
250g pancetta(nokkurs konar ítalskt beikon)/má nota beikon í staðinn, skorið gróflega
½ bolli ósaltað smjör, skorið í teninga
3 bollar saxað sellerí
4 bollar saxaður laukur
2 msk söxuð fersk salvía
1,5 tsk salt
0,5 tsk svartur pipar
3 krukkur flysjaðar soðnar kastaníuhnetur (chestnuts) í hálfu (4 bollar)
200g steinalausar sveskjur
5 bollar kalkúnasoð, volgt
4 stór léttþeytt egg

Hitið ofninn og stillið grindinni upp í efri þriðjung ofnsins, 200°c og bakið brauðmolana í c.a. 15 mínútur, hræra í þeim af og til. Bakaðir brauðmolar í stóra skál og Pancetta (eða beikon ef ekki fæst Pancetta, en þá má kannski minnka salt í uppskriftinni) í stóra pönnu og brúnað í c.a. 12-15mínútur. Bætið smjöri útí Pancetta/beikonið, bræðið og bætið svo sellerí og lauk og eldið í 1 mínútu. Færið þessa blöndu í skálina með brauðmolunum ásamt kastaníuhnetum og sveskjum. Þeytið eggjum og soði saman, og blandið vel saman við allt í skálinni, og bakið svo í eldföstu móti með loki eða álpappír í 30 mínútur. Takið svo lokið af og bakið í 10-15 mínútur aukalega þar til hún er orðin fallega brúnuð.

"Eins og þið sjáið fer fyllingin aldrei inn í kalkúninn, ég veit ekki hvenær og af hverju því var breytt, en ætli kaninn vilji ekki hafa þetta stökkt í munni og því bakað þetta utan við kalkúninn. Mér finnst nú allt í lagi samt að setja helminginn af þessu inn í fuglinn, ásamt kannski heilum lauk og hvítlauk og bjóða bara upp á bæði. Fyllingin mun lyfta sér svo gerið ráð fyrir aukarými í forminu eða inni í dýrinu." segir Agnes.   

Strengjabaunir í engifersmjöri
fyrir 8

800g ferskar strengjabaunir ef þær fást, annars frosnar - (helst ekki niðursoðnar, mér finnst þær allavega yfirleitt algjörlega ofsoðnar og vantar alveg stökklegheitin).
8 cm af fersku engifer, flysjað og skorið í eins litla teninga og hver og einn nennir, eða rifið
3 msk (ósaltað) smjör
Fínlega rifinn börkur af sítrónu eða lime
½ tsk af maldon salti eða öðru góðu salti

Ferskar baunir sjóðast í 5-9 mínútur í söltu vatni, eða gufusjóðast (betra) og það má gera daginn áður og geyma svo í kæli. Best er að setja þær beint í ísvatn eftir suðu til að stoppa eldunina. Hitið smjörið á meðalheitri hellu þar til freyðir og skellið engiferi út í og eldið þar til það verður gullið. Bætið baununum í smjörið og veltið um í c.a. 2 mínútur, setjið á disk og stráið salti og sítrónuberki yfir.

Trönuberjasósa með perlulauk og rúsínum

1 bolli sykur
280g perlulaukur, soðinn í 3 mínútur og svo flysjaður
0,5 bolli rúsínur (golden)
250g trönuber (fersk eða frosin)

Hitið sykurinn í þykkri pönnu á miðlungshita, hrærið stöðugt þar til hann er algjörlega bráðnaður og brúnaður. Takið af hitanum og bætið varlega 1 bolla af heitu vatni, hrærið vel saman, eldið svo blönduna á miðlungs hita þar til “karamellan” er orðin algjörlega útþynnt með vatninu. Bætið lauk og rúsínum, og svo trönuberjum og á lágum hita eldið það saman í um 10 mínútur. Látið kólna og berið fram!  Amerísk Þakkargjörðarmáltíð 2010Pumkin pie/graskersbaka

250g rjómaostur eða philadelphia
2 bollar eldað og maukað grasker (við elduðum heilt grasker og svo mældi ég bara í bökuna og súpuna úr því) það má líka kaupa niðursoðið grasker.
1 bolli sykur
¼ tsk salt
1 egg
2 eggjarauður
1 bolli rjómi (eða half/half)
¼ bolli bráðið smjör
 1 tsk vanilludropar
½ tsk kanill
¼ tsk engiferduft -
Tilbúið filodeig/bökudeig úr búðinni ;)
Þeyttur rjómi til skreytingar

Ofninn hitaður í 180°. 9 tommu kökuform klætt með deiginu, upp á brúnir og sett í frost. Það er auðvitað guðvelkomið að nota sína eigin uppskrift í stað búðarkeypta deigsins, en það gerir ekki nokkur lifandi sála hér í USA nema við, ég bara finn ekki uppskriftina. Bakið svo í um 20 mínútur eða þar til botnin er ljósgullinbrúnn. Þeytið rjómaostinn í stórri skál, og bætið svo graskeri við og blandið vel saman. Sykur og salt er næst, og þar á eftir egg og eggjarauðublanda, rjómi og bráðið smjör, öllu blandað vel saman. Að lokum, vanilla og krydd saman við og öllu hellt út á bakaðan botninn og bakað í 50 mínútur, eða þar til miðjan er orðin stíf. Kælið að stofuhita á rekka, skerið svo niður í sneiðar og berið fram með vænni slettu af rjóma; fullkominn endir á megamáltíð ársins!


Ég  þakka Agnesi kærlega fyrir hjálpina með þennan pistil
og ég hlakka mikið til að borða mikið og meir með henni í framtíðinni.
Bestu kveðjur til Vesturheims!


Vinkonurnar ungar og saklausar í denn;)

  
  • Herna

640.is   |   Ábyrgđarmađur Hafţór Hreiđarsson   |   vefstjori@640.is   |   Sími: 895-6744