Sultur - en vi sveltum ei!

g er svo einstaklega heppin a vera ttu r Sultum Kelduhverfi. Ekki ng me a eiga ar dsamlegt athvarf fallegustu sveit landsins fylgir v

Sultur - en vi sveltum ei!
Stra & sntt slunni - Olga Hrund - Lestrar 1002 - Athugasemdir (0)

Sulturnar mnar
Sulturnar mnar
Ég er svo einstaklega heppin að vera ættuð úr Sultum í Kelduhverfi. Ekki nóg með að eiga þar dásamlegt athvarf í fallegustu sveit landsins þá fylgir því líka frábær og fallegur frænkuhópur sem er alveg með ólíkindum skemmtilegur og hress.

Síðastliðið laugardagskvöld buðum við Anna Heba þeim Sultarsystradætrum sem búa hér á Húsavík í frænkudinner til okkar á Höfðann ásamt einni systurdótturdóttur sem og bestu mágkonu í heimi. Þetta hafði verið í bígerð í nokkrar vikur og því var spenningurinn fyrir kvöldinu orðinn mikill – ég var víst líka búin að lofa öllu fögru.

Þegar þær voru allar mættar í hús var byrjað á því að skála í freyðivíni og einnig var boðið upp á hráskinkuvafðar melónur og Primadonna ostinn góða úr Ostabúðinni við Skólavörðustíg. Ég leyfði þeim svo bara að spjalla og skemmta sér á meðan ég fór í það að útbúa forréttinn handa okkur. Ég er nú ekki beint þessi skipulagða týpa, en batnandi mönnum er best að lifa þannig að til þess að geta nú notið sem best og mest félagsskaparins þá reyndi ég að hafa allt eins mikið undirbúið og ég gat þannig að ég átti eiginlega bara eftir að rétt henda mat á pönnu og í ofn.

Í forrétt var alveg frábær réttur sem ég var að prófa í fyrsta skipti en sko alls ekki það síðasta. Ég fann uppskriftina einhversstaðar á netinu þegar ég gúgglaði humaruppskriftir en man því miður ekki á hvaða síðu ég fann hana – vona að ég verði ekki kærð fyrir stuldur!

Hráskinkuvafinn humar á pestósnittu
f. 10

20 litlir humarhalar
Hráskinka (ég trúði ekki minni eigin heppni þegar ég fann spænska hráskinku í Úrval fyrir helgi – halelújah amen!)
1 snittubrauð - skorið niður í 20 sneiðar
Grænt pestó
Rucola salat






Ég tók humarinn úr frysti á föstudeginum þannig að hann væri þýður á laugardagsmorgninum og því gat ég skelflett hann og hreinsað – og svo vafið utan um hann dásamlegri hráskinkunni. Þannig að þarna þurfti ég þá bara að henda snittusneiðunum aðeins inn í ofn, steikja humarinn á pönnu, talað um eina mínútu á hvorri hlið, en best að nota bara skynsemina. Ég var nú svo bara með tilbúið pestó í krukku þar sem ég sé engan tilgang í því að búa það til sjálf fyrir miklu meiri pening og smurði því á snitturnar, lagði smá rucola salat ofan og svo einn humar á hverja snittu. Frænkurnar voru alveg óðar í þetta og ég býst fastlega við að þetta sé ofarlega á páskaseðlinum í ár enda alveg ótrúlega dásamlegur forréttur.

Með forréttinum bauð ég upp á ADOBE hvítvín, lífrænt ræktað en ekki hvað? Þetta vín skaust fyrir stuttu lengst upp í fyrsta sæti á vínlistanum mínum, meira að segja fyrir ofan Masi og þá er nú mikið sagt – snilldarlega gott hvítvín.

Í aðalrétt var svo réttur sem ég gerði fyrir nokkrum árum með vinkonunum í bústað í Aðaldal og er búin að vera á leiðinni síðan þá að gera aftur því hann er algjör snilld. Ég fann þessa uppskrift hérna um árið í Vínblaðinu en ég held að ég geri nú bara sérpistil einhverntímann um það blað því að þeir sem að því standa eiga heiður skilinn – frábært blað og ókeypis!

Nautarúlla með sesamsojasósu
f. 10

nautafillet – skorið í mjög þunnar sneiðar
1 gul paprika, skorin í strimla
1 græn paprika, skorin í strimla
1 -2 rauð paprika, skorin í strimla
1-2 rauð chili – (uppskriftin segir að það eigi líka að skera í strimla en ég saxaði það bara mjög smátt niður og setti ekki mjög mikið í hverja rúllu – en þetta má gera eftir smekk)
2 msk ólífuolía
Salt og svartur pipar
Grillpinnar – vel bleyttir



Ég undirbjó þetta líka heima á laugardeginum þannig að eina sem ég þurfti að gera var að nudda ólífuolíu á rúllurnar og henda þessu aðeins inn í ofn. Ég var sem sagt búin að skera niður kjötið í þunnar sneiðar, allar paprikurnar niður í strimla og chili-ið smátt niður og svo raða þessu öllu í kjötið, rúlla upp og setja á grillpinna. Ég hafði þrjár rúllur á pinna því ég reiknaði með þremur rúllum á mann. Hjá Önnu Hebu setti ég þetta svo bara í ofninn með grillið í botni og horfði á þetta til að ofelda þetta nú ekki, þannig að þetta var bara örstutt í ofninum og ég snéri pinnunum einu sinni.

Sesamsojasósa
200 ml sojasósa (ég held að þetta megi alveg vera minna)
1 msk rauður sykur - ég notaði nú reyndar bara hrásykur en hlakka til að prófa þetta með rauðum – hann á að fást í heilsuvöruverslunum
1 laukur, saxaður
½ tsk sesamfræ (ég setti miklu meir)

Þessu eru bara öllu blandað saman í skál og borið fram með nautarúllunum. Með  þeim bar ég einnig fram fyrsta risottó-ið mitt en ég ætla að birta uppskriftina síðar því ég eiginlega bara gerði eitthvað út í loftið og ætla því að æfa mig betur um páskana og skrifa niður uppskrift – ég lofa að þið fáið að njóta síðar, því góður var hann.

Eitthvað grænt verður nú að hafa með fyrir hollustupúkann og setti ég aðeins af spínati, jarðarberjum og dassaði svo olíu með ferskum sítrónusafa yfir. Mér fannst þetta allt mjög gott og passa vel saman en það má auðvitað hafa hvað meðlæti sem er með þessum rúllum.

Með aðalréttinum var boðið upp á Thorntree Shiraz og Crin Rioja – bæði ágæt vín í ódýrari kantinum.

Ég fékk mömmu aftur til að hjálpa mér með eftirréttinn og það var reyndar hennar hugmynd að bjóða upp á uppáhalds tertuna mína í öllum heiminum; bláberjaostaköku með bláberjasultu lagaða úr bláberjum frá Sultum. Þessi uppskrift er í einhverjum eldgömlum bæklingi frá Osta – og smjörsölunni, ég veit ekkert frá hvaða ári hann er en hann er númer 57. Ég tek uppskriftina bara beint upp úr honum:

Ostakaka með bláberjum

¾ bolli hafrakexmylsna
2 msk sykur
3 msk smjör, brætt
Fylling:
1 bolli sykur
1/3 bolli vatn
1/8 tsk cream of tartar eða pottaska á hnífsoddi
3 eggjahvítur
500 r rjómaostur
½ dós sýrður rjómi
2tsk vanilludropar
1 msk rifið sítrónuhýði
½ bolli bláberjasulta, þykk (hjá okkur eru að sjálfsögðu eingöngu notuð ber úr sveitasælunni okkar)

Þeyttur rjómi og fersk eða frosin bláber til skrauts - ég sleppti því, hún er alveg nógu góð bara eintóm! En auðvitað um að gera að hafa fullt af bláberjum á berjatíma – en hérna á hjara veraldar voru einfaldlega ekki til bláber í búðum fyrir helgi. Þessi sneið hérna á myndinni fékk reyndar eitt jarðarber svona til að líta betur út á mynd.




Mér finnst best að borða þessa köku þegar hún er alveg frosin en það er jú smekksatriði eins og svo margt annað í þessu lífi.

Við frænkur áttum alveg hreint út sagt frábærar stundir saman og ég mæli svo sannarlega með svona matarboðum með vinum og fjölskyldum. Þetta þarf ekki að vera svo dýrt og lögðum við bara allar í púkk og ég sá svo um að versla mat og vín og um að elda - en vil nú þakka systrum og móður fyrir góða hjálp. Þið munið örugglega ekki trúa því en við borguðum 1500 krónur á mann fyrir allan þennan mat og vínið með. Humar og naut var hvoru tveggja keypt á tilboði og ef maður reynir að vera skynsamur þá er oft auðvelt að búa til góða veislu fyrir ekki svo mikinn pening. Ég gat meira að segja búið til mína fyrstu humarpizzu úr afgöngunum á sunnudeginum – og ætla ég svo sannarlega að æfa mig betur í humarpizzugerð um páskana og þið munið fá að heyra af því fljótlega.

Gleðilega páska og munið að borða vel og lengi!

Olga

  • Herna

640.is | byrgarmaur Hafr Hreiarsson | vefstjori@640.is | Smi: 895-6744