Pizzur á páskum

Eins og ég sagđi í síđasta pistli ţá hugđi ég á frekari ćfingar í humarpizzugerđ um páskana. Í ţeim tilgangi bauđ ég mér ásamt systur og guđdóttur í

Pizzur á páskum
Sötrađ & snćtt í sćlunni - Olga Hrund - Lestrar 988 - Athugasemdir (0)

Humarpizzan góđa.
Humarpizzan góđa.
Eins og ég sagði í síðasta pistli þá hugði ég á frekari æfingar í humarpizzugerð um páskana. Í þeim tilgangi bauð ég mér ásamt systur og guðdóttur í matarboð til Haffa bróður og Ellu á föstudaginn langa.
Ég skipaði Ellu mágkonu sem yfirbakara þannig að hún sá um að búa til deigið fyrir okkur og lét hún mér í té eftirfarandi uppskrift:

Pizzudeig
f. ca 2 pizzur í bakarofn eða 3 hringlóttar í pizzuofn

7 dl hveiti (má vera hluti heilhveiti)
3 dl vatn (volgt)
1 mtsk púðursykur
1 tsk ger
1 mtsk olía
½ tsk salt

Ger og púðursykur er sett út í vatnið og látið leysast upp í um það bil 15 mínútur. Þá er allt hrært saman og svo látið hefast í um það bil klukkustund. Fólk getur auðvitað líka notað sína eigin uppskrift  eða þá ef að fólk nennir ekki að búa til deig þá er líka alltaf hægt að kaupa tilbúið – eða reyndar er það ekki alltaf hægt hér í bæ, en svona oftast.


Ella sem sagt sá alfarið um deighliðina þannig að ég fékk bara deigið tilbúið í hendurnar útflatt og skorið í hringi og gat því farið beint í að setja hráefnið ofan á. Fyrst smurði ég grænu pestói yfir þrjá pizzubotna og setti svo rauðlaukshringi á tvo þeirra – síðan voru þeir bakaðir einn og einn í einu í snilldarpizzuofninum hennar Önnu Hebu.


Ég skildi aldrei hvað Anna var alltaf að tuða um þessa pizzuofna og óska sér í jólagjöf og afmælisgjöf og ég veit ekki hvað – mér bara datt ekki í hug að það væri hægt að gera svona fullkomna pizzubotna heima hjá sér  eins og ég svo komst að þegar hún loksins fékk ofninn í jólagjöf eitt árið. Ég man ekki hvað hann heitir en þeir fást í Byko og eru rauðir og hringlóttir og ég bara mæli svo sannarlega með þeim - eiginlega skyldueign á hverju heimili.


Á meðan Ella sá um að græja deigið og baka botnana skelfletti ég og hreinsaði 1 kg af humri og steikti hann svo á pönnu með smá hvítlauk og hellti að lokum örlítið af rjóma yfir. Að sjálfsögðu skemmir aldrei að mala svartan pipar yfir góðan mat.

Síðan þegar botnarnir voru bakaðir og tilbúnir raðaði ég humri á þessa tvo með rauðlaukshringjunum og henti svo slatta af rucola salati yfir, dassaði ólífuolíu og reif parmisan ost yfir. Ég veit að ég hef sagt þetta áður; en þetta sló algjörlega í gegn og er sko þokkalega komið til að vera í matargerð okkar fjölskyldunnar.

Á hina pizzuna henti ég parma hráskinku (hægt að fá fínustu hráskinku núna í Bónus á ansi fínu verði – allt í lagi að kaupa nokkur bréf og frysta bara) og svo líka bara rucola salati, olíu og parmisan osti í sneiðum. Allt mjög einfalt en svo ótrúlega, ótrúlega gott og alveg fullkomið fyrir sumarkvöldin sem bíða okkar handan við hornið.

Með þessu drukkum við að sjálfsögðu uppáhaldshvítvínið okkar þessa dagana; ADOBE chardonnay – skál!












  • Herna

640.is   |   Ábyrgđarmađur Hafţór Hreiđarsson   |   vefstjori@640.is   |   Sími: 895-6744