slensk kjtspa - alvru

ar sem piparsveinapistillinn fr Leifi Mihsum sl svo rkilega gegn vetur taldi g vera kominn tma annan pistil fr honum. etta skipti

slensk kjtspa - alvru
Stra & sntt slunni - Olga Hrund - Lestrar 1307 - Athugasemdir (0)

Þar sem piparsveinapistillinn frá Leifi í Miðhúsum sló svo rækilega í gegn í vetur þá taldi ég vera kominn tíma á annan pistil frá honum. Í þetta skiptið ætlar hann að fjalla um íslensku sauðkindina og koma með tvær uppskriftir þar sem hún spilar stórt hlutverk. Íslensk kjötsúpa er Leifi mjög hugleikin og hann getur orðið all æstur þegar þetta málefni ber á bóga, sérstaklega þegar hann hefur lent í því að fá vonda kjötsúpu á veitingastöðum.

Þetta eru kannski ekkert sumarlegustu uppskriftirnar en það er svo sem ekkert búið að vera svo sumarlegt veður upp á síðkastið svo ég læt þetta sleppa - þið getið þá allavegana alltaf geymt þær þangað til í haust. Ég hef aldrei búið til kjötsúpu og hvað þá lærasneiðar svo ég ætla bara að gefa Leifi alfarið orðið hér með:


Kindur eru góðar á bragðið.

Frá örófi alda hefur sauðkindin, að mannskepnunni meðtalinni verið merkilegust skepna á Íslandi. Flest lög í landinu eru sett með hagsmuni sauðkindarinnar að leiðarljósi og það eru meira að segja til heilu stofnanirnar og jafnvel embættin sem hafa það hlutverk umfram öðrum að tryggja hag sauðkindarinnar og að koma í veg fyrir að henni verði misdægurt. Þetta á sér allt saman ákaflega eðlilegar skýringar. Sauðkindin gefur okkur náttúrulega ullina eins og segir í kvæðinu og þessi elska gefur okkur líka kjötið, læri og hrygg og allskonar að ógleymdu blessuðu súpukjötinu.


Kjötsúpa

Íslensk kjötsúpa er einhver allra besti matur í veröldinni. Þess vegna er það óskiljanlegt að ekki skuli vera búið að setja lög um það hvernig kjötsúpa eigi að vera samansett til að mega kallast Íslensk kjötsúpa. Staðreyndin er nefnilega sú að það má víða finna á matseðlum veitingastaða, eitthvert glundur sem veitingamenn leyfa sér að kalla hefðbundna Íslenska kjötsúpu. Trúlega er það ofboðslegur ótti við fitu sem veldur því súpan verður ólystug og nánast bragðlaus og minnir ekkert á Íslenska kjötsúpu. Hætt er við því að margur smalinn yrði svekktur ef honum yrði boðið uppá fituskerta kjötsúpu að loknum erfiðum degi við smalamennsku. En nóg um það. Sem betur fer er skítlétt að búa til almennilega kjötsúpu en það tekur reyndar talsverðan tíma.

 

Hráefni:

Súpukjöt

Gulrætur

Rófur

Hvítkál

Súputeningur

Salt

Pipar

Síðan má alveg nota einhver grjón og kartöflur og allskonar grænmeti (alls ekki tómata samt), líka súpujurtir, og jafnvel lárviðarlauf já og einiber svona ef menn kæra sig um það.

Tæki og áhöld

Pottur, helst nokkuð stór

Hnífur

Matskeið

Skurðarbretti (má sleppa)

Súpukjötið er sett í pott ásamt vatni, súputeningi og slatta af salti, sett á eldavélarhellu á allra hæsta straum. Þegar vatnið er byrjað að sjóða er mikilvægt að lækka undir pottinum. Það kemur svolítil froða ofan á vatnið sem er ekkert svakalega girnileg en örugglega ekkert hættuleg, það er tilvalið að veiða hana ofanaf ef menn nenna því. Á meðan kjötið er að sjóða er sniðugt að skera niður rófur og gulrætur í svona sæmilega litla bita, síðan tekur við bið og þá er upplágt að fá sér eins og einn bjór eða jafnvel djúsglas fyrir þá sem það vilja. Þegar kjötið er búið að sjóða í svona klukkutíma er passlegt að bæta rófum og gulrótum útí pottinn og halda síðan áfram bíða í smá stund og vinda sér svo í það að skera niður kálið og bæta því líka útí pottinn. Og bíða. Nú þarf að fara að smakka súpuna til, þá er gott að hafa skeið í seilingarfjarlægð, viðbúið er að þurfi að bæta við eins og hálfum súputengi og jafnvel salti og pipar, einiberin geta gert kraftverk. Þegar bragðið er orðið ásættanlegt og rófurnar og gulræturnar orðnar það linar að maður treysti sér til þess að bíta þær er súpan tilbúin til átu. Hana á svo að hita upp að lágmarki tvisvar.


Steiktar lærisneiðar með engu

Lærisneiðar eru herramannsmatur, og það tekur enga stund að útbúa dýrindis málsverð úr þeim.

Hráefni:
Lærisneiðar
Salt
Pipar
Einiber
Olía
Garðblóðberg, eða timían (ekki duft heldur planta, fæst í plastboxum í sumum kaupfélögum)
 

Tæki og áhöld

Steikarpanna

Steikarpanna er sett á eldavélarhellu, hækkað í botn og olíu bætt á. Þegar pannan er orðin sjóðandi heit eru lærisneiðarnar settar á hana ásamt blóðbergi og einiberjum (gott að kremja þau) steikt í smá stund á hvorri hlið og kryddað með salti og pipar. Mikilvægt að passa að steikja kjötið ekki of mikið. Kjötið er svo svakalega gott á bragðið að það borgar sig ekki að hafa neitt meðlæti eða sósu eða neitt þannig með þessu. Flóknara var það nú ekki.


Ég þakka Leifi kærlega fyrir pistilinn og hlakka til að fá næsta pistil frá honum.

Ég kem svo með eitthvað rosalega sumarlegt í næstu viku!


  • Herna

640.is | byrgarmaur Hafr Hreiarsson | vefstjori@640.is | Smi: 895-6744