Brau og bakstur

Um daginn fr g nmskei hj ekkingarneti ingeyinga eim tilgangi a lra bakstur, ea reyna a allavegana. Mr finnst tilhugsunin um a baka voa

Brau og bakstur
Stra & sntt slunni - Olga Hrund - Lestrar 843 - Athugasemdir (0)

Um daginn fór ég á námskeið hjá Þekkingarneti Þingeyinga í þeim tilgangi að læra bakstur, eða reyna það allavegana. Mér finnst tilhugsunin um að baka voða krúttleg og kósý en ég held samt að ég hafi komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé samt ekki eitthvað fyrir mig. Ég held að ég sé bara ekki fyrir deig. Allavega ekki fyrr en það er orðið að brauði - og þá er það auðvitað ekki deig.


Ég vil nú samt reyna að læra betur að baka því þótt ég sé ekki mikið fyrir deig þá hreinlega elska ég brauð.  Og þar sem ég get kannski ekki endalaust stólað á mömmu og Steina, þótt frábær séu, þá  er ekki seinna vænna en að fara prófa þetta eitthvað.  Svo að ég fór á námskeið og dró Jónu hótelstjóra með mér og áttum við mjög góða kvöldstund með skemmtilegu fólki. Ekki var nú verra að fá svo að smakka afraksturinn í lokin, namm! Og ætla ég að leyfa ykkur að njóta með og set hér nokkrar uppskriftir að því sem við bökuðum þetta kvöld.

PÍTUBRAUÐ

2 stór

3 1/2 dl hveiti

3 msk heilhveiti

1 1/2 tsk þurrger

1/2 tsk salt

1 1/2 dl volgt vatn

Aðferð:

1. Mælið öll þurrefni og ger í skál.

2. Bætið vatni saman við og blandið vel með sleif.

3. Hnoðið vel á hveitistráðu borði.

4. Notið hveiti svo að deigið festist ekki við fingurna en varist að nota of mikið.

5. Látið deigið lyfta sér í skál á hlýjum stað í 15 mínútur.

6. Skiptið deiginu í tvo hluta og mótið tvær flatar kökur tæplega 1 cm á þykkt.

7. Látið lyfta sér á bökunarplötu í 10 mínútur á hlýjum stað.

8. Bakið í 6-8 mínútur eða þangað til brauðin eru lyft og falleg gullinbrún.

9. Leyfið pítunum að kólna í sex mínútur áður en þið rjúfið endann á þeim og fyllið með salati að eigin vali og sósu.

ÍTALSKT SKORPUBRAUÐ

Fordeig:

200 ml vatn

200 g hveiti

3 g pressuger

Allt unnið saman í ca 5 mínútur. Sett í kæli yfir nótt.

400 g fordeig

450 g hveiti

400 ml vatn

10 g pressuger

22 g salt

Allt nema saltið er unnið rólega saman í 2 mínútur. Vinnið síðan deigið á miðjuhraða í 8 mínútur. Þá er saltið sett saman við og unnið í 4 mínútur í viðbót. Athugið að deigið er mjög blautt og klístrað. Setjið deigið á borð með hveiti undir og látið standa í 90 mínútur undir rökum klút. Takið deigið í þrjá hluta, þá er deigið mótað mjög varlega og sett beint á bökunarplötuna, látið hefast aftur i ca. 20 mínútur. Setjið deigið inn í 250°C heitan ofninn og úðið vatni um leið. Lækkið hitann niður í 230°C og bakið í um 22-25 mínútur. Bakið þar til brauðið er gullið að lit og góð skorpa er komin á brauðin.

KJÖTHORN

320 ml mjólk

600 g hveiti

20 g salt

20 g sykur

60 g smjörlíki

10 g pressuger

Fylling:

400 g beikonsmurostur

130 g saxað pepperoni

Rifinn mozzarellaostur

Setjið allt saman í hrærivélarskál og vinnið rólega í 4 mínútur með króknum, vinnið svo deigið á miðjuhraða í 5 mínútur. Mótið deigið í kúlu og latið hefast undir rökum klút í ca. 45 mínútur. Fletjið þá deigið út með kökukefli 30 cm x 70 cm, smyrjið ostinum á miðjuna á deiginu og setjið pepperoni yfir ostinn. Brjótið saman deigið. Skerið deigið niður í tígla og leggið á smjörpappír (ca 16 stk.) Látið deigið hefast í 45 mínútur eða þar til það hefur tvöfaldast að umfangi. Penslið deigið með vatni og setjið mozzarellaostinn yfir. Bakið við 220°C í um það bil 18 mínútur eða þar til fallegur gylltur litur er kominn á kjöthornin.

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá námskeiðinu og stal ég þeim (með leyfi þó) af facebooksíðu Þekkingarnetsins - en ég tók nú samt nokkrar þeirra sjálf svo þetta jafnast út. Eins og þið sjáið þá var brjálað stuð hjá okkur nemendunum og Ingólfi kennara.


Pítubrauð - mitt og Ingólfs - sjáið þið einhvern mun?

Sissa og Jóna alveg á fullu.

 Ingólfur eitthvað að skipa okkur fyrir - mér sýnist fólk nú eitthvað mismikið vera að hlusta á hann.

 Samvinna er mjög mikilvæg í bakstri og var hún mjög góð hjá Danna frænda og Dóru.

Namminamm.


Annað kvöld er ég að fara í matarboð þar sem í boði verður dásamlega gott pasta

og skal ég gefa ykkur uppskriftina að því í næstu viku!





  • Herna

640.is | byrgarmaur Hafr Hreiarsson | vefstjori@640.is | Smi: 895-6744