Grćni púlsinn: Pálmi Rafn Pálmason

Grćni púlsinn var ađ sjálfsögđu á sínum stađ í Völsungsleikskránni sem kom út í gćr fyrir leik Völsungs og Hamars en liđin mćtast á Húsavíkurvelli kl.14 á

Grćni púlsinn: Pálmi Rafn Pálmason
Íţróttir - Rafnar Orri Gunnarsson - Lestrar 904 - Athugasemdir ()

Pálmi Rafn Pálmason
Pálmi Rafn Pálmason

Græni púlsinn var að sjálfsögðu á sínum stað í Völsungsleikskránni sem kom út í gær fyrir leik Völsungs og Hamars en liðin mætast á Húsavíkurvelli kl.14 á morgun. Völsungurinn Pálmi Rafn Pálmason, leikmaður Lillestrøm í Noregi, birtist í skránni en hann var á ferðalagi með liði sínu frá Þrándheimum þegar að við tókum púlsinn á honum í vikunni.

Hvernig er atvinnumanna lífið í knattspyrnu ?
Það er bara mjög fínt. Skemmtilegt en krefjandi. Ekki jafn mikil afslöppun eins og maður hefði kannski haldið áður en maður kynntist því.

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér ?
Venjulegur dagur núna á miðju tímabili er ca. þannig að ég vakna um 7.30 og keyri upp til Lillestrøm (ég bý í Bærum sem er úthverfi Osló), það tekur ca. 25 min að keyra. Við eigum að vera mættir í morgunmat á leikvanginum kl. 8.40 þannig að við höfum ágætis tíma milli þess sem við borðum og æfum. Kl. 10.00 byrjar svo æfing og við æfum í 1 1/2 - 2 klukkutíma. Um kl. 13 er svo matur aftur og þá erum við búnir. Þá fer ég heim og eyði deginum með fjölskyldunni.

Stefndir þú að því frá barnsaldri að verða atvinnumaður ?
Já það má segja að ég hafi gert, það var allavega mjög snemma sem ég ákvað mig. Man nú einhvern tímann eftir því að ég ætlaði að verða lögga en ég breytti því ansi snemma og var fastur á því að verða atvinnumaður. Ég var svo heppinn að það tókst. Það er líka ein lögga hjá okkur í fjölskyldunni þannig að það er alveg nóg.

Hvað hefur komið þér mest á óvart í heimi atvinnumannsins ?
Ætli það sé ekki tíminn sem fer í þetta. Maður bjóst við því að þetta væri meira og minna bara að skreppa á æfingar og spila leiki og hafa það gott. En það eru mikil ferðalög í þessu og mikill tími sem fer í þetta, sérstaklega á undirbúningstímabilinu sem er í janúar - mars.

Stabæk vs Lilleström, hver er munurinn ?
Munurinn er svo sem ekkert rosalega mikill. Það er reyndar svolítill munur á leikstíl liðanna. Svo er reyndar Stabæk í mjög miklum fjárhagsvandræðum núna en Lillestrøm eru betur staddir þar. Annars eru þetta báðir góðir klúbbar.

Besta stund á ferlinum til þessa ?
Það var mjög gaman að skora sigurmarkið sem tryggði Stabæk meistaratitilinn árið 2008. Það var líka stór stund að spila í evrópukeppninni á móti Valencia sem var þá skipað mönnum eins og Villa, Silva og Mata. Einnig er það alltaf mjög mikill heiður að spila fyrir landsliðið.

Hvernig horfir Pálmi Rafn til framtíðar í sambandi við fótboltaferilinn ?
Ég er með samning við Lillestrøm út árið 2014, eftir það veit ég nú ekki hvað tekur við. Hugsanlegt að maður verði áfram hér en vonandi tekst manni að komast eitthvað aðeins lengra, það styttist alltaf tíminn sem maður hefur hins vegar. Ég vona svo að ég komi og spili heima á Íslandi í nokkur ár áður en maður hættir.

Hver er draumurinn ?
Draumurinn er auðvitað að spila fyrir Arsenal. Ég hef nú á tilfinningunni að sá draumur sé ekki alveg að fara að rætast en við sjáum til. Arsene Wenger tekur nú ótrúlegar ákvarðanir oft í sínum leikmannakaupum, hver veit nema að honum detti í hug að taka eina Brúnagerðis afurð í hópinn sinn.

Hvað er það mikilvægasta fyrir leikmann að gera til þess að ná árangri ?
Það mikilvægasta er að æfa. Það er hellingur til í þessum leiðinlega frasa að æfingin skapi meistarann. Svo er það líka mikilvægt að setja sér markmið og einbeita sér að því að ná þeim.

Þegar þú heyrir nafnið Völsungur, hvað er það fyrsta sem þú hugsar ?
Það kemur svo margt upp í hugann. T.d. Húsavíkurvöllur, sól og sumar, flottur fótbolti, barna- og unglingastarf, Jónas Hallgríms, íþróttahöllin. Það er hægt að nefna margt, en það eru allavega bara góðar hugsanir sem koma upp í hugann. Skemmtilegt að sjá hvað þetta litla félag nær að ala upp marga unga og efnilega fótboltamenn og svo þjálfara líka.

Eftirminnilegasti leikur fyrir Völsung ?
Sennilega er það nú Njarðvík-Völsungur í umspili að komast upp í 2. deild. Magnús “Boom Boom” Halldórsson ákvað að hrækja einni tuðru í netmöskvana með tilheyrandi látum.

Góð saga frá þínum tíma hjá Völsungi ?
Það er ómögulegt eiginlega að nefna eina sögu, þær eru margar og góðar og ætli Jónas kallinn komi ekki fram í þeim flestum. Jú ein hérna: Við vorum að hlaupa í fjörunni í eitt af mörgum skiptum og vorum að fara að taka “suicide”. Þegar Birkir Vagn telur að hann eigi ekki meira eftir á tankinum þá segir hann við Jónas: “Jónas ég get ekki meir, ég er alveg búinn.” Þá svarar Jónas: “Nú, af hverju geturðu þá talað???” Það var ekkert spurt að því hjá Jónasi.

Helduru að þú munir spila aftur fyrir Völsung ?
Ég vona það! Væri ekkert skemmtilegra en að ljúka ferlinum heima.

Hversu mikið saknar þú Húsavíkur ?
Alltof mikið. Ótrúleg tilfinning alltaf að koma heim. Sakna Húsavíkur sérstaklega mikið þessa dagana þar sem Mærudagar eru á næsta leiti og það eru ALLIR að fara á þá! Það finnst mér ekki gott. En ég fylgist með úr fjarlægð og vona að þetta verði góðir dagar eins og alltaf.

Lokaorð til stuðningsmanna Völsungs ?
Haldið áfram að styðja við liðið ykkar, þetta eru ungir og efnilegir strákar og stelpur með ábyrgð á herðum sér. Það er öfundsvert að tilheyra stærstu fjölskyldu landsins eins og ég heyrði Völsungs- fjölskylduna einhvern tímann nefnda. Vona svo að ég eigi eftir fá stuðning frá ykkur eftir nokkur ár. Áfram Völsungur!!!

paslmi

Græni púlsinn: Elfar Árni Aðalsteinsson (2.tbl)
Græni púlsinn: Hallgrímur Jónasson (3.tbl)
Græni púlsinn: Hallgrímur Mar Bergmann
(4.tbl)
Græni púlsinn: Hafrún Olgeirsdóttir (5.tbl)
Græni púlsinn: Aron Bjarki Jósepsson
(6.tbl)


Athugasemdir

  • Herna

Ingvar Björn-Rafnar Orri- Bjarki Breiđfjörđ