Völsungar safna fartölvum og GSM símumAðsent efni - - Lestrar 447
Knattspyrnukrakkar Völsungs hyggst hefja nýstárlega fjáröflun sem felst í því að safna gömlum fartölvum og GSM símum sem ekki eru lengur í notkun á heimilum og hjá fyrirtækjum á Húsavík. Krakkarnir fá greitt fyrir þau tæki sem safnast en þau eru flutt út í endurnýtingu.
Fyrirtækið Græn framtíð annast flutning á tækjunum til viðurkenndra endurvinnslufyrirtækja erlendis sem tryggja endurnýtingu á þeim með ábyrgum hætti. Heilir símar og fartölvur verða nýttir áfram í þróunarlöndum og íhlutir úr ónýtum tækjum verða nýttir í annan búnað. Þá verður spilliefnum úr þeim eytt með löglegum hætti.
Krakkarnir sem hafa skrifað undir vímuvarnar- og ástundunarsamning við félagið og stefna á ferðalag 2011 munu á næstu dögum ganga í hús og safna búnaði sem er ekki lengur í notkun og vonast þeir til þess að íbúar á Húsavík taki vel á móti þeim, styrki ferðalagið og stuðli að því að gömul raftæki öðlist framhaldslíf.