Veturinn er á leiðinni og nokkrir Hálfvitar með

Hve oft á ári má maður spila á sama staðnum áður en maður er orðinn úrsérgenginn innanstokksmunur?

Veturinn er á leiðinni og nokkrir Hálfvitar með
Fréttatilkynning - - Lestrar 875

Hve oft á ári má maður spila á sama staðnum áður en maður er orðinn úrsérgenginn innanstokksmunur?

Fimm sinnum? Sex sinnum? Eða kannski jafnvel nítján sinnum? Þessu hafa fjölmargir heimspekingar velt fyrir sér og komist að ólíkum niðurstöðum.  Ljótu hálfvitarnir telja hins vegar að það sé aldrei of oft spilað á Græna hattinum og þeir ættu að vita það, þeir hafa á að skipa heimspekingi, guðfræðingi og manni með tvö lyftarapróf.

Þannig að þeir mæta alltaf þegar færi gefst og láta sér það í léttu rúmi liggja hvað heimspekingar fabúlera og fimbulfamba. Þeir verða til dæmis á Græna hattinum föstudagskvöldið 1. og laugardagskvöldið 2. september, núna um helgina. Keyrt verður á stórkarlalegt stuð með hæfilegri blöndu af póetískri angurværð og seyðandi síðsumarsveiflu.

Miðaverð er 3.900 kr. Húsið er opnað kl. 21 en Hálfvitar öskra sitt fyrsta „Einn, tveir og þrír!“ um tíuleytið.

Forsala er hafin á grænihatturinn.istix.is og Backpackers á Akureyri.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744