Útgáfutónleikar einkennilegra manna

Dúettinn Down & Out sendi fyrir nokkru frá sér breiðskífuna Þættir af einkennilegum mönnum og hyggjast fagna útgáfunni með tvennum tónleikum.

Útgáfutónleikar einkennilegra manna
Fréttatilkynning - - Lestrar 303

Dúettinn Down & Out sendi fyrir nokkru frá sér breiðskífuna Þættir af einkennilegum mönnum og hyggjast fagna útgáfunni með tvennum tónleikum.

Fyrst í Leikhúsinu, Funalind 2 í Kópavogi miðvikudaginn 30. ágúst kl. 21, og daginn eftir á Gamla bauk á Húsavík kl. 22.

Húsavík er fæðingarheimili hljómsveitarinnar, en hana skipa þeir Ármann Guðmundsson og Þorgeir Tryggvason. Down & Out var framarlega í flokki í gróskumiklu tónlistarlífi bæjarins í kringum 1990 og þá urðu flest lögin til.

Seinna þróaðist hljómsveitin út í tríóið (og enn seinna nonettinn) Ljótu hálfvitana, en það er önnur saga. Tónlistin er illskiljanlegur bræðingur af þjóðlagatónlist, proggi og pönki. Mætti kannski kalla hana sirkuspönk, þó sjálfir kalli þeir félagar hana wonk, sem enginn veit hvað þýðir fyrr en viðkomandi heyrir í Down & Out.

Dúettinum til liðsinnis á tónleikunum verða þeir Baldur Ragnarsson, upptökustjóri plötunnar og Loftur S. Loftsson. Jafnvel má eiga von á góðum leynigestum. Miðaverð er 4.000 kr. og greiðist við innganginn með handvirkum jafnt sem rafrænum leiðum.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744