Ungt fólk til athafna

Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur falið Vinnumálastofnun að tryggja það markmið að aldrei skuli líða meira en þrír mánuðir frá því að einstaklingur

Ungt fólk til athafna
Aðsent efni - - Lestrar 396

Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur falið Vinnumálastofnun að tryggja það markmið að aldrei skuli líða meira en þrír mánuðir frá því að einstaklingur verður atvinnulaus þar til honum er boðið starf, námstækifæri, starfsþjálfun eða þátttaka í öðrum verðugum verkefnum. Þessu markmiði skal náð gagnvart fólki á aldrinum 18-24 ára fyrir 1. apríl 2010 í nánu samstarfi við stéttarfélög, fyrirtæki og sveitarfélög.

Í gærdag var haldinn kynningarfundur í fundarsal Framsýnar þar sem Soffía Gísladóttir, forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Norðurlands eystra kynnti verkefnið fyrir atvinnuleitendum hér á svæðinu í aldurshópnum 18-24 ára. Á fundinn mættu einnig fulltrúar þeirra aðila sem bjóða upp á virkniúrræði hér á svæðinu en það eru stéttarfélögin, Íþróttafélagið Völsungur, Framhaldsskólinn, Þekkingarsetrið, Rauði krossinn og Norðurþing. Í boði eru mörg mjög spennandi úrræði sem lögðust vel í þá sem fundinn sátu.

Alls mættu 19 atvinnuleitendur á kynningarfundinn og að honum loknum skráði hver og einn sig í það úrræði sem viðkomandi leist best á. Í þessu átaki er ekkert val um óvirkni, ef einstaklingarnir skrá sig ekki í úrræði veldur það bótamissi. Með þátttöku í úrræðunum halda þeir bótunum og verða um leið virkir þátttakendur í samfélaginu. Þetta átak á að koma í veg fyrir að ungir atvinnulausir einstaklingar einangrist. Það er trú okkar sem erum þátttakendur í verkefninu að félagsleg virkni gefi þessum einstaklingum betra tækifæri til að snúa aftur út á vinnumarkaðinn. Í raun er verið að gefa ungum atvinnuleitendum möguleika á að koma sér af stað í námi, öðlast starfsréttindi eða kynnast nýjum starfsvettvangi, sér að kostnaðarlausu.

Við hjá Framsýn höfum ákveðið að standa fyrir Opnu húsi alla virka daga milli kl. 10:00 og 12:00 þar sem atvinnuleitendur á öllum aldri eru velkomnir. Opna húsið hefst formlega fimmtudaginn 28. janúar. Stefnt er að því að einstaklingarnir sem eru komnir af stað í átaki Vinnumálastofnunar komi og hitti starfsmann Framsýnar í Opna húsinu hvern föstudag og ræði þar upplifun sína og skoðun á þeim virkniúrræðum sem þeir eru í.

Það er von okkar að þetta verkefni haldi þeim sem misst hafa vinnuna í virkni þangað til atvinnutækifærum fjölgar á nýjan leik.

Hilmar Valur Gunnarsson.

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744