Þurfum að berjast fyrir atvinnuuppbygginguAðsent efni - - Lestrar 484
Allt frá síðustu kosningum hefur sveitarfélagið Norðurþing verið að undirbúa framkvæmdir fyrir stóriðju á Bakka. Með skipulagsvinnu og umtalsverðum fjárfestingum í orkuleit á Þeistareykjum.Verkefnið gekk samkvæmt áætlun allt þar til Þórunn Sveinbjarnardóttir þáverandi umhverfisráðherra úrskurðaði að framkvæmdir við álver á Bakka þyrftu í sameiginlegt umhverfismat. Það eitt og sér var að sjálfsögðu reiðarslag fyrir þetta samfélag og algjörlega úr takti við það sem þurft hefur að uppfylla fyrir sambærilegar framkvæmdir annarsstaðar.
Þá hefði okkur átt að vera ljóst hvað hug vinstri flokkarnir höfðu til álvers á Bakka. Þeir virðast ekki hafa sérstakan áhuga á því að láta þetta verkefni verða að veruleika. En við ætlum að klára þetta verkefni, það er að segja að byggja upp stóriðju á Bakka. Með því fáum við fjölbreyttara atvinnulíf og það er það sem við þurfum fyrir Norðurþing allt.
Þurfum Dettifossveg alla leið
Eitt mikilvægasta verkefni næstu ára er að tryggja að Dettifossvegur verði kláraður alla leið niður að Ásbyrgi. Það er algjört forgangsverkefni fyrir svæðið í heild. Með því fáum við möguleika á að ekið verði hringinn Húsavík – Mývatn – Dettifoss – Ásbyrgi. Því miður skortir skilning á þessu hjá samgönguyfirvöldum og við þurfum því að berjast fyrir seinni leggnum af fullri hörku.
Aukinn fjöldi ferðamanna framhjá Dettifossi og Ásbyrgi opnar möguleika á fjárfestingum í gistirými. Það vantar sárlega gistirými við Öxarfjörð þá er ég að tala um hótel með að minnstakosti 20 herbergjum og baði inná hverju þeirra, hótel sem getur tekið fjölda manns í mat. Ef að Dettifossi og Ásbyrgi koma þúsundir ferðamanna á ári hverju við getum gefið okkur það að einhverjir vilji dvelja á þessu svæði eina eða fleiri nætur. En í dag eru ekki margir kostir í boði, ég er ekki að gera lítið úr því sem fyrir er á svæðinu en það er bara ekki nóg. Dettifossvegur er því forgangsmál.
Tækifærin liggja líka á Raufarhöfn
Tækifærin í ferðaþjónustu eru mörg og fjölbreytt, til Raufarhafnar kemur fjöldi ferðamanna t.d. til að skoða fugla og njóta náttunnar. Þar er líka eitt stórvirkið í uppbyggingu, Heimsskautsgerðið sem nú þegar dregur fjölda ferðamanna að. Þetta mannvirki er gott dæmi um það þegar mönnum dettur eitthvað í hug og framkvæma það. Það er einmitt það sem við þurfum, dug til að nýta þau gæði sem Þingeyjasýslurnar bjóða uppá. Fyrir því vil ég berjast.
Olga Gísladóttir skipar 2. sæti á D-lista.