Það þarf vilja til breytingaAðsent efni - - Lestrar 319
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra er nú í samvinnu við ÁTVR að leggja lokahönd á breytingar á reglum áfengissölunnar um móttöku og dreifingu til þess að jafna aðstöðu framleiðenda á landsbyggðinni við að koma vöru sinni á markað. Breytingarnar fela það m.a. í sér að ÁTVR getur samið beint við birgja um afhendingu á vöru sem dreifa á um nærsvæði framleiðenda á öðrum stöðum en í Reykjavík.
Þetta mun m.a. leiða af sér að vínframleiðendur líkt og Vífilfell á Akureyri og Bruggsmiðjaná Árskógsströnd gætu afhent vörur sínar beint í verslanir ÁTVR á Akureyri, Dalvík, Siglufirði, Blönduósi, Húsavík,Vopnafirði, Egilsstöðum Seyðisfirði eða öðrum stöðum á norður og austurlandi í stað þess að þurfa að keyra þær langar leiðir í vöruhús ÁTVR í Reykjavík eins og þurft hefur hingað til. Hér er um afar brýnt mál að ræða fyrir þessifyrirtæki og dregur mjög úr kostnaði þeirra við að koma vöru sinni á markað.
Málflutningur þeirra fékk ekki fengið hljómgrunn hjá fyrri ríkisstjórnum og stjórnarþingmenn þeirra studdu ekki málflutning þessara fyrirtækja á Alþingi. Kristján Þór Júlíusson er einn þeirra sem ekki hefur viljað ljá þessu máli stuðning sinn fyrr en núna þegar hann er kominn í stjórnarandstöðu. Þá bar svo við að hann rauk loksins til og lagði fram þingsályktunartillögu um að jafna stöðu fyrirtækja á landsbyggðinni hvað þetta varðar. Það var frekar seint í rassinn gripið hjá þingmanninum því þá þegar var verið að vinna að breytingum á þessum reglum sem nú hafa tekið gildi eins og þingmanninum átti að vera kunnugt um.
Orðagjálfur og innantómloforð eru hinsvegar sjaldan mikils virði. Í þessu máli sem fleirum er það oftast viljinn til verka sem þarf til að hreyfa við málum.
Björn Valur Gíslason