Stelpurnar í 4. flokki StefnumótsmeistararÍþróttir - - Lestrar 186
Stelpurnar í 4. flokki kvenna tóku þátt í Stefnumóti KA í knattspyrnu um helgina.
Mótið fór fram í Boganum á Akureyri og stóð frá föstudegi til sunnudags.
Stelpurnar sem tóku þátt voru 15 talsins og óhætt að segja að þær hafi staðið sig vel.
Á heimasíðu Völsungs segir að liðið hafi spilaði 4 leiki í riðlakeppni á föstudag og laugardag, þar mættu þær liðum KA, Þór 1, Þór 2 og Tindastóls. Eftir þessar viðureignir voru þær í öðru sæti eftir að hafa unnið 3 leiki og tapað einum. Það var því ljóst að liðið myndi spila til úrslita í mótinu á sunnudag við Þór 1 sem þær höfðu tapað fyrir 2-3 í fyrsta leik mótsins.
Spennustigið var hátt fyrir leikinn en þrátt fyrir það náði liðið að leika vel í fyrrihálfleik og var 1-0 yfir í hálfleik. Í seinni hálfleik gerðu Þórsstelpur harða hríð að marki okkar en hetjuleg barátta liðsins og þrautseigja allt til enda skilaði sigri og þar með 1. sætinu í mótinu.
Skemmtilegur endir á góðu móti hjá liðinu, það sem mestu máli skiptir þó er að stelpurnar bættu sig mikið, sýndu mikinn dugnað og vilja og því uppskáru þær sem raun ber vitni.