Spennandi tónlistarferðalag byggt á þjóðlagaarfi NorðurlandannaFréttatilkynning - - Lestrar 473
Tríóið Húm skipa Ásta Soffía Þorgeirsdóttir (harmóníka), Eline Maria Refvem (söngur) og Håkon Drevland (klassískt slagverk).
Þau stunda öll bachelornám við Tónlistarháskólann í Ósló. Ásta Soffía er alin upp á Húsavík í Þingeyjarsýslu, Eline er frá Sandnes í vestur Noregi og Håkon er frá Mosjøen í norður Noregi.
Tríóið Húm spilar þjóðlagatónlist frá Norðurlöndunum en fetar sig samfara því inn á nýjar slóðir. Leitast er við að grípa myndina sem birtist í textum og laglínum þjóðlaganna og þróa hana áfram með fjölbreytilegum hljómtilbrigðum harmóníkunnar, klassíska slagverksins og raddarinnar. Stuðst er við þjóðlagaarfinn, um leið og notast er við reynslu úr klassísku tónlistarnámi sem og frían spuna.
Meðlimir Húms vilja með þessu kynna þjóðlagatónlist Norðurlandanna í nýrri og spennandi mynd. Von þeirra er að hin fallega og fjölbreytta þjóðlagatónlist Norðurlandanna snerti við fólki og veiti tónlistarfólki innblástur til sköpunar. Einnig að almenningur heyri þjóðlagatónlistina meira sem mun eiga þátt í því að næstu kynslóðir muni heyra hana og læra svo hún lifi frjóu lífi um ókomna tíð.
Tríóið Húm mun halda ferna tónleika á Norðurlandi í sumar; þeir tveir fyrstu eru afstaðnir en þeir voru á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði sl. fimmtudagskvöld og á Kópaskeri í gærkveldi.
Í kvöld kl. 20:30 verða tónleikar í Húsavíkurkirkju og annað kvöld kl. 20:00 í Hlöðunni á Akureyri.