Skrifað undir nú síðdegis við PCCAlmennt - - Lestrar 85
Nú síðdegis náðist samkomulag milli PCC og Framsýnar/Þingiðnar um kjaraamning fh. starfsmanna fyrirtækisins til næstu fjögurra ára.
Um þessar mundir eru um 150 starfsmenn á launaskrá hjá fyrirtækinu sem er eitt mikilvægasta fyrirtækið á félagssvæði Framsýnar og Þingiðnar hvað launakjör félagsmanna varðar.
Samningurinn felur í sér sambærilegar launahækkanir og samið var um á almenna vinnumarkaðinum fyrr á árinu. Samningurinn gildi frá 1. febrúar 2024 til 1. febrúar 2028. Samningur þessi felur í sér nánara samkomulag um framkvæmd þeirra samninga fyrir félagsfólk Framsýnar og Þingiðnar sem starfar hjá PCC BakkiSilicon hf.
Á vef Framsýnar segir að hópur starfsmanna PCC hafi verið viðstaddur undirskriftina nú síðdegis. Ekki var annað að heyra en að þeir væru mjög ánægðir með samninginn. Það voru þau Aðalsteinn Árni frá Framsýn, Jónas Kristjáns frá Þingiðn, Tomasz Mayewski og Ingimar Knútsson trúnaðarmenn starfsmanna og Gestur Pétursson forstjóri og Marella Steinsdóttir mannauðsstjóri PCC sem skrifuðu undir samninginn.
Ragnar Árnason forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins átti ekki heimagengt og var því ekki á svæðinu þegar skrifað var undir samninginn. Hann kom að gerð samningsins.