Sala á raforkuhluta Orkuveitu Húsavíkur ehf.Aðsent efni - - Lestrar 393
Þann 6. nóvember síðastliðinn skrifuðu forsvarsmenn Orkuveitu Húsavíkur ehf., RARIK ohf. og Orkusölunnar ehf. undir samning um kaup þeirra síðarnefndu á raforkuhluta Orkuveitunnar. Með kaupunum eignast RARIK rafdreifikerfi Orkuveitunnar og Orkusalan tekur við sölustarfsemi fyrirtækisins. Orkustöðin - virkjun Orkuveitunnar og önnur dreifikerfi verða áfram í eigu fyrirtækisins. Viðskiptavinir Orkuveitu Húsavíkur verða frá og með 1. janúar 2010 viðskiptavinir RARIK og Orkusölunnar eins og aðrir íbúar sveitarfélagsins Norðurþings hafa verið.
Umrædd sala hefur verið gagnrýnd. Það er eðlilegt að skiptar skoðanir séu á þessum gjörningi. Það er mat undirritaðs að umrædd sala sé fyrirtækinu og þar með íbúum Norðurþings til hagsbóta. Með þessum skrifum eru færð rök fyrir þeirri skoðun í þeirri von að slíkt hvetji til málefnalegrar umræðu.
Orkuveitan hefur ráðist í miklar fjárfestingar á liðnum árum. Þar eru stærstar lagning vatnsæðar frá Hveravöllum, uppbygging Orkustöðvar og framlag til orkurannsókna á vegum Þeistareykja ehf. Orkuveitan er af þessum sökum orðin skuldsett og fall krónunnar samfara efnahagshruninu leiddi til þess að skuldir Orkuveitunnar voru orðnar 1.617 mkr. í lok árs 2008 og bókfært eigið fé neikvætt um 142 mkr. Greiðslubyrði lána Orkuveitunnar hefur verið nokkuð þung og voru næsta árs afborganir langtímalána áætlaðar 155 mkr. í lok árs 2008. Þetta nemur 53% af heildartekjum Orkuveitunnar. Norðurþing hefur hlaupið undir bagga vegna afborgana af lánum á árinu 2009. Við slíkt verður ekki búið til lengri tíma nema að skerða almenna þjónustu sveitarfélagsins. Það er því brýnt fyrir Norðurþing að Orkuveitan létti á skuldum og losi um fé til að geta staðið við skuldbindingar sínar. Óráð er að auka skuldir Orkuveitunnar enn frekar og ekki varlegt að treysta á að skuldir lækki með hækkandi gengi krónunnar.
Gagnrýnt er að samningarnir hafi verið undirritaðir án vitundar íbúa Norðurþings, eiganda Orkuveitunnar. Engin tilraun hefur verið gerð til að fara á bak við almenning eða sveitarstjórn, þvert á móti. Samningarnir eru gerðir með fyrirvara um samþykki stjórnar Orkuveitunnar. Þrátt fyrir að stjórn Orkuveitunnar hafi fullan rétt til að staðfesta samningana, taldi stjórnin rétt að bera samningana undir hluthafafund og sveitarstjórn í framhaldinu. Þannig fái eigandinn, Norðurþing, og íbúar sveitarfélagsins tækifæri til að fjalla um þá með beinum hætti. Þessi grein er innlegg í þá lýðræðislegu umræðu.
Sölu á raforkuhluta Orkuveitunnar hefur verið líkt við slátrun á góðri mjólkurkú. Raforkusalan hefur litlu skilað í áranna rás og tap hefur verið á þessum rekstrarþætti frá því að Orkustöðin bilaði. Orkuveitan er með hæsta rafmagnsverð á landinu og stjórn fyrirtækisins telur ekki gerlegt að hækka verð þannig tekjur af raforkusölu mæti kostnaði vegna hennar. Þarna ræður miklu að löggjafinn hefur lagt miklar og kostnaðarsamar kvaðir á dreifendur rafmagns. Markaður Orkuveitunnar er of lítill til að réttlæta þann rekstrarkostnað sem felst í að uppfylla þær kröfur sem núverandi lög áskilja svo unnt sé að bjóða samkeppnishæft verð á raforku. Meðalraforkuverð (flutningur og dreifing) til heimilisnota á Húsavík, er umtalsvert hærra en lægsta verð sé litið á landið allt sem eitt markaðssvæði. Með sölunni losnar Orkuveitan undan lagakröfum sem felast í auknum aðskilnaði milli framleiðslu, dreifingar og sölu á rafmagni og þar með umtalsverðan kostnað fyrir jafn lítil orkufyrirtæki og Orkuveituna. Gagnstætt raforkusölunni, hefur rekstur dreifikerfisins skilað hagnaði. Árið 2008 var hagnaður af þessari starfsemi, fyrir afskriftir og fjármagnsliði, 11,4 m.kr. Það liggur hinsvegar fyrir að vegna bágrar fjárhagsstöðu hefur Orkuveitan ekki getað fjárfesti í viðhaldi kerfisins eins og æskilegt væri. Uppsöfnuð fjárfestingarþörf er þannig orðin mikil og þær fjárfestingar sem ekki verða umflúnar munu éta upp hagnað næstu ára. Ekki verður lengur við það unað að ekki sé fjárfest í rafdreifikerfinu. Því miður er það svo að það verður ekki gert án lántöku. Hrun krónunnar hefur leitt til þess að skuldir Orkuveitunnar hafa aukist mjög og eru nú fjórfaldar árstekjur. Frekari skuldasöfnun verður að forðast í lengstu lög og gjaldskrárhækkunum verðu að halda í hófi. Umræddir samningar styðja þessi markmið.
Verðmæti rafdreifikerfis felst í þeim tekjum sem það getur skapað eiganda sínum. Það er í hæsta máta óeðlilegt að framreikna upphæðir sem rafdreifikerfi annars staðar á landinu hafa verið seld fyrir án þess að taka tillit til þeirra tekna sem kerfið getur skapað. Væru umsvifin meiri á Húsavík mætti til sanns vegar færa að dreifingin væri meira virði. Umrædd eign nemur um 5,7% af bókfærðu virði heildareigna Orkuveitunnar.
Það hefur farið í það margra mánaða vinna að semja um verð á rafdreifingunni og rafmagnssölu til RARIK og Orkusölunnar. Undirritaður harmar að heiðarleiki við samningagerð og verðmat hefur verið dreginn í efa. Margar aðferðir hafa verið notaðar við þetta mat og hefur verðmiðinn hækkað til muna frá upphafi viðræðnanna. Það er bjargföst trú undirritaðs og þeirra sérfræðinga sem komið hafa að málinu að umræddir samningar séu eðlilegir og ásættanlegir miðað við framantalið og voru undirritaðir með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi. Fjármagn er dýrt um þessar mundir sem hefur ekki aðeins áhrif á verðmiðann en einmitt af þeim sökum er rétt að létta á skuldbindingum Orkuveitunnar frekar en að auka við þær með auknum lántökum eins og hefur verið nefnt hefur verið.
Ákveði menn að selja ekki hefur það afleiðingar. Þeir sem leggjast gegn samningum OH verða að gera sér grein fyrir því að lántökuleiðin er ófær. Valið stendur milli sölu á eign og gjaldskrárhækkana.
Bergur Elías Ágústsson,
stjórnarformaður Orkuveitu Húsavíkur ehf.