Rokka í hverri höfn-Byrja á HúsavíkFréttatilkynning - - Lestrar 642
Eikarbáturinn Húni II mun sigla í kringum landið í júlí og Áhöfnin rokka í hverri höfn.
Hugmyndin um að sigla hringinn í sumar og halda tónleika í hverri höfn kviknaði í vetur í samtölum tónlistarmannanna og Jóns Þórs Þorleifssonar.
Strax var ákveðið að ferðin yrði ekki í gróðaskyni heldur var Slysavarnarfélaginu Landsbjörg boðið að selja inn á tónleikana og safna peningum í starfsemi sína.
Síðar var svo RÚV boðin aðkoma að verkefninu og hefur verið ákveðið að fylgja túrnum eftir með sjónvarps og útvarpsþáttagerð í allt sumar. Það eru Margrét Blöndal og Felix Bergsson sem leiða það verkefni.
Húni II er 50 ára gamall eikarbátur, smíðaður í skipasmíðastöð KEA á Akureyri. Margir þekkja þennan fallega bát sem gjarnan liggur við Torfunesbryggju í miðbæ Akureyrar.
Hann hefur aldrei áður gegnt hlutverki rokkbáts.
Tónleikarnir verða 16 talsins og fyrstu tónleikar verða á Húsavík miðvikudaginn 3. júlí. Síðan verður haldið austur og siglt í kringum landið.
Áhöfnin er hljómsveit skipuð tónlistarmönnunum Jónasi Sig, Láru Rúnars, Mugison, Ómari Guðjónssyni, Guðna Finnssyni og Arnari Gíslasyni.