Réttarríkið og milljarðamæringarnirAðsent efni - - Lestrar 306
Hver samfylkingarmaðurinn á fætur öðrum hefur nú gengið fram fyrir skjöldu og heimtað rannsókn á rannsókn Baugsmálsins. Sá sem hefur leitt baráttuna er þingflokksformaður „jafnaðarmanna“, Lúðvík Bergvinsson, en hann heimtar rannsóknina í þágu: almannahagsmuna, trúverðugleika réttarríkisins og síðast en ekki síst þess að verja lítilmagnann gagnvart misbeitingu ríkisvaldsins.
Þessar áhyggjur Samfylkingarinnar nú af stöðu lítilmagnans í réttarríkinu Íslandi gagnvart ríkisvaldinu með því að máta mál milljarðamæringanna í Baugi inn í þá stöðu er afkáralegt. Baugsmenn hafa átt greiðan aðgang að fjölmiðlum og þeim hefur heldur ekki orðið skotaskuld úr því að greiða fyrir fima lagavörn og bestu sérfræðiaðstoð erlendis frá.
Íslenskur almenningur hlýtur að setja spurningarmerki við að á sama tíma og þessi hávaðasama mannréttindabarátta Samfylkingarinnar er háð fyrir hönd milljarðamæringanna skuli varaformaður sjávarútvegsnefndar Alþingis, Karl Matthíasson, lýsa yfir sérstakri gleði með svar ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks þar sem fram kemur að það eigi ekki að fara að áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og að það eigi að halda áfram að brjóta mannréttindi á sjómönnum.
Það er greinilegt að forystu Samfylkingarinnar þykir að þeir með þykkari veskin eigi að vera jafnari fyrir lögunum en aðrir.
Sigurjón Þórðarson.