Orkuveitan breytir um rekstrarform

Mánudaginn 2. janúar 2012 var haldinn hluthafafundur hjá Orkuveita Húsavíkur þar sem nýtt rekstrarform félagsins var samþykkt.

Orkuveitan breytir um rekstrarform
Aðsent efni - - Lestrar 901

Mánudaginn 2. janúar 2012 var haldinn hluthafafundur hjá Orkuveita Húsavíkur þar sem nýtt rekstrarform félagsins var samþykkt. Orkuveitan verður með þessari breytingu opinbert hlutafélag, í stað einkahlutafélags sem áður var.

Þetta var niðurstaða stefnumótunarvinnu félagsins sem lauk í mars 2011 og var samþykkt af stjórn félagsins og eiganda þess á aðalfundi í apríl sama ár. Þessu hefur nú verið hrint í framkvæmd, auk þess sem Orkuveita Húsavíkur og Norðurþing skrifuðu undir kaupsamning þess fyrrnefnda á vatnsveitum og fráveitum í Norðurþingi.

Stefnumótunin var leidd af Guðlaugu Gísladóttur hjá Þekkingarneti Þingeyinga. Að stefnumótuninni komu fulltrúar allra framboða í Norðurþingi auk stjórnar og starfsfólks Orkuveitunnar.

Niðurstöður stefnumótunarvinnunnar leiddu að skilgreiningu á tilgangi starfsemi Orkuveitunnar, sem er sá að auka búsetugæði á svæðinu. Sýn fyrirtækisins var einnig skilgreind sem svo að Orkuveitan væri veitufyrirtæki og hlutverk þess væri að hámarka afrakstur þeirra auðlinda sem fyrirtækinu væri trúað fyrir með skynsamlegri nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni fyrir eigendur og notendur að leiðarljósi.

Ennfremur var það ákveðið að stofna opinbert hlutafélag um Orkuveituna sem áfram yrði í eigu sveitarfélagsins. Ástæða þess er sú að um opinber hlutafélög gilda lög sem gera almenningi hægara um vik að fá upplýsingar um fyrirtækið, rekstur og samþykktir. Aðalfundir eru til að mynda opnir fjölmiðlum og kjörnum fulltrúum eiganda, þ.e. viðkomandi bæjarstjórnarmönnum. Einnig felast í þessu skýr skilaboð um að Orkuveitan verði um ókomna tíð í almannaeigu. (Fréttatilkynning)


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744