Ný íslensk ópera frumflutt í HörpuFréttatilkynning - - Lestrar 378
Ævintýraóperan Baldursbrá eftir Gunnstein Ólafsson og Böðvar Guðmundsson verður frumflutt á sviði í Norðurljósasal Hörpu laugardaginn 29. ágúst næstkomandi og er miðasala hafin á harpa.is.
Rímnalög og rapp
Tónlistin í Baldursbrá byggir að hluta á íslenskum þjóðlögum, hvort tveggja rímnalögum og þulum, en þar bregður einnig fyrir rappi og fjörlegum dönsum. Söngvarar eru Fjóla Nikulásdóttir í hlutverki Baldursbrár, Eyjólfur Eyjólfsson í hlutverki Spóa, Jón Svavar Jósefsson er Rebbi, Davíð Ólafsson syngur Hrútinn og ellefu börn eru í hlutverki yrðlinga. 16 manna kammersveit leikur undir stjórn Gunnsteins Ólafssonar.
Baldursbrá í hættu stödd
Óperan segir frá Baldursbrá sem kynnist sposkum Spóa. Þau ákveða að fara saman upp á fjallstind til þess að njóta útsýnisins en það reynist ekki einfalt mál. Þau fá Rebba til að flytja blómið upp á efstu eggjar þar sem hræðilegur hrútur eigrar um í leit að æti. Yrðlingar Rebba reyna að fella Hrúturinn en það reynist þeim þrautin þyngri. Líf Baldursbrár hangir á bláþræði og hún þarf að komast aftur heim í lautina sína sem fyrst. En hver kemur þá til bjargar?
Leikstjóri sýningarinnar er Sveinn Einarsson, leikmynd gerir Sigurjón Jóhannsson, búninga hannar Kristina Berman og Messíana Tómasdóttir gerir grímur. Höfundur dansa er Ingibjörg Björnsdóttir og Páll Ragnarsson sér um lýsingu.
Umsagnir um tónleikauppfærslu Baldursbrár í fyrrasumar voru á eina lund. Gagnrýnandi Fréttablaðsins, Jónas Sen, gaf tónleikunum fjórar stjörnur og sagði meðal annars: „Texti Böðvars er frábærlega ortur og tónlistin er eins góð og hugsast getur. Hún er alþýðleg og grípandi, með frábærlega skemmtilegum litbrigðum ... Þegar ég gekk út að tónleikum loknum heyrði ég fólk vera að blístra stef úr óperunni. Það eitt og sér er góður vitnisburður. Óhætt er að óska höfundunum til hamingju með glæsilegt verk.“