Komu glaðir heim eftir vel heppnað mótÍþróttir - - Lestrar 411
Stórmót ÍR var haldið um helgina og komu keppendur HSÞ heim glaðir og ánægðir eftir vel heppnað mót.
Ferðin hófst á föstudag en farið var með rútu frá Fjallasýn um kl. 13:30 frá Húsavík. Með í för voru 20 keppendur, 2 fararstjórar, 2 þjálfarar og 2 foreldrar. Ferðin suður gekk afar hægt vegna hálku og hvassviðris en krakkarnir voru mjög þolinmóð og góð þrátt fyrir það. Það var bæði sungið og farið í spurningaleiki. Þá var einnig horft á margar DVD myndir til að drepa tímann. Komið var í farfuglaheimililið í Laugardal um kl. 23 eftir níu og hálfan tíma frá Húsavík.
Það var góður andi í hópnum og keppnin gekk vel. Margir að bæta sinn persónulega árangur, örfá héraðsmet féllu og hópurinn kom heim með 3 gull, 8 silfur og 3 brons.
Verðlaunasætin voru:
Atli Barkarson varð annar í 60 m hlaupi, annar í hástökki og annar í langstökki í 11 ára flokki stráka.
Óskar Ásgeirsson varð þriðji í 60 m hlaupi í 12 ára flokki stráka.
Brynjar varð annar í 60 m hlaupi og annar í 200 m hlaupi í flokki 15 ára pilta. Hann setti einnig nýtt héraðsmet í 200 m þegar hann hljóp á 25,05.
Dagbjört Ingvarsdóttir varð önnur í langstökki 16-17 ára.
Elvar Baldvinsson varð fyrstur í 60 m grind og hástökki, hann varð annar í kúlu og þriðji í langstökki í flokki 15 ára pilta.
Jana Björg Róbertsdóttir varð fyrst í 800 m hlaupi í 15 ára flokki stúlkna.
Hjörvar Gunnarsson varð þriðji í 400 m hlaupi í 16-17 ára pilta.
Auður Gauksdóttir varð í 2-3 sæti í hástökki 15 ára stúlkna.
Auk þess voru margir ofarlega í sínum aldursflokkum þó þau hafi ekki náð verðlaunasætum. Hafdís og Hlynur settu nýtt héraðsmet í 600 m hlaupi í 13 ára flokkum stúlkna og pilta. Og eins og áður sagði voru margir að bæta sinn persónulega árangur og umfram allt höfðu allir gaman af.
Á laugardagskvöldið sló hópurinn saman í pizzuhlaðborð og sumir horfðu á mynd á meðan aðrir voru að spjalla.
Lagt af stað til baka um kl 4 á sunnudag og heimferðin gekk fljótt og vel fyrir sig enda vegir orðnir auðir.
Til hamingju krakkar með góðan árangur og skemmtilegt mót. (123.is/hsth)