Ítölsku jólin fyrir 25 árum síðan

Árið 1983 – 1984 dvaldi ég sem skiptinemi hjá ítalskri fjölskyldu í Tórínó á Ítalíu. Sú lífsreynsla er ein sú dýrmætasta sem ég hef upplifað

Ítölsku jólin fyrir 25 árum síðan
Almennt - - Lestrar 354

Soffía Gísladóttir.
Soffía Gísladóttir.

Árið 1983 – 1984 dvaldi ég sem skiptinemi hjá ítalskri fjölskyldu í Tórínó á Ítalíu. Sú lífsreynsla er ein sú dýrmætasta sem ég hef upplifað – reynsla sem verður aldrei frá mér tekin.

 

Ég bjó hjá mömmu og pabba, Chiöru systur og Brúnó bróður, þau voru bæði yngri en ég. Ég var unglingurinn á heimilinu og ruddi veginn fyrir systkin mín, þeim til mikillar gleði.

 

 

 

Dvölin frá frábær, svona eftir fyrsta sjokkið (þegar ég komst að því að enginn talaði ensku, hvorki í fjölskyldunni né í skólanum). Ég átti eina bestu vinkonu í nokkurn tíma, það var orðabókin, ítölsk-ensk/ensk-ítölsk. En eftir ótrúlega skamman tíma, þar sem neyðin kenndi naktri konu að spinna, var ég orðin altalandi á þetta dásamlega fallega tungumál og þá voru mér allir vegir færir.

 

Haustið leið, lífið gekk sinn vanagang og jólin fóru að nálgast. Ég fór að hugsa eins og Íslendingur, fór að huga að því að kaupa mér jólakjól og undraðist hversu lítið var skreytt. Mamma og pabbi ákváðu þó að skreyta jólatréð heima í Via Montebello fyrir afmælið mitt sem er 7. desember, því þá var haldin mikil veisla. Það er mikill áfangi að verða 18 ára á Ítalíu og því bar að fagna. Jólatréð var nú eina jólaskreytingin á mínu ítalska heimili.... og ekki voru bakaðar kökur, en við borðuðum fylli okkar af Gallup og Pandoro sem eru ítalskar jólakökur (keyptar í búð).

Periasc

Jólin voru síðan haldin uppi í fjöllum, í litlum fjallabæ sem heitir Periasc og er í Valle d’Ayas sem er hluti af Valle d’Aosta í hinum dásamlegu ítölsku Ölpum. Ítölsku foreldrar mínir eiga hús í Periasc og hafði ég eytt talsvert mörgum helgum í þessum yndislega bæ þar sem ég gat drukkið eins mikið af ferskvatni og ég gat í mig látið – þá leið mér eins og heima á Fróni.

Við komum til fjalla á Þorláksmessu (sem er ekki haldin hátíðleg á Ítalíu). Við skíðuðum allan Aðfangadaginn, borðuðum dæmigerðan ítalskan kvöldverð og héldum okkur vakandi til miðnættis þegar við fórum í jólamessuna í Champoluc, sem er annar lítill fjallabær. Á jóladagsmorgun eyddi ég talsverðum tíma í að taka mig til og fara í nýja jólakjólinn sem ég hafði fjárfest í að íslenskum sið. Ég gekk mjög hátíðlega niður tröppurnar, niður í stofu þar sem fjölskyldan var að gera sig klára til að opna jólagjafirnar. Þau misstu náttúrulega andlitið þegar þau sáu mig því þau voru bara í gallabuxunum sínum og köflóttu þykku fjallaskyrtunum – eins og þau eru alltaf í fjallakofanum........  og mér leið eins og hálfvitaJ 

En dagurinn var eftirminnilegur á sinn hátt. Jólamaturinn var dýrðlegur þar sem við sátum til borðs hátt í þrjár klukkustundir. Allir voru hamingjusamir og jólaskapið var á sínum stað.  Þegar allt kom til alls þá voru jólin jafn hátíðleg og heima.

Það sem ég lærði af þessari jólalífsreynslu minni, jólin 1983 í litlu fjallaþorpi á Ítalíu var að jólin koma með sinn kærleika og hátíðleika hvar sem er í heiminum og það átti ég svo sannarlega eftir að fá staðfestingu á síðar meir á lífsleiðinni.

Soffía Gísladóttir

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744