Hvers virði er mannorð þitt ?-Misnotkun á hinu guðdómlega stigi-

Ágústa Ágústsdóttir í Garði 2 í Kelduhverfi sendi 640.is eftirfarandi grein til birtingar og ber hún nafnið: Hvers virði er mannorð þitt? Og

Ágústa Ágústsdóttir.
Ágústa Ágústsdóttir.

Ágústa Ágústsdóttir í Garði 2 í Kelduhverfi sendi 640.is eftirfarandi grein til birtingar og ber hún nafnið: Hvers virði er mannorð þitt? Og undirtitillinn er: -Misnotkun á hinu guðdómlega stigi-

 

Greinina skrifar Ágústa í kjölfar greinar sem hún birti í Skarpi og víðar fyrir skömmu og kom einnig fram í viðtali í Vikunni, og fjalla um dóm yfir eiginmanni Ágústu vegna meintra kynferðisafbrota.

 

Hvers virði er mannorð þitt? Oft hef ég velt þessari spurningu fyrir mér mína stuttu lífsleið. En aldrei þó eins oft og undanfarin 2 ár. Hefur þú, kæri lesandi einhvern tímann velt þessu fyrir þér? Hefur þú gert upp við þig hvort mannorð þitt sé meira virði heldur en nágranna þíns, mannsins þíns, barnsins þíns, yfirmanns þíns o.s.frv.? Er það þér þess virði að leggja mannorð annars manns eða heillar fjölskyldu í rúst til þess eins að þú eða aðrir hagnist á því, eða jafnvel til að fela mistök þín eða vanhæfni í starfi?

Hversu langt myndir þú ganga til að verja æru þína, ástvina eða vina þinna ef þeir lægju undir rangri sök og þú gætir stigið fram með sannleikann, en værir þá um leið að brjóta trúnað samkvæmt lögum?

Eins og mannflóran er misjöfn, þá hefur mannskepnan alltaf haft þá tilhneigingu að draga fólk í dilka og hólfa það niður, eftir þjóðfélagsstöðu, menntun o.fl. Ég spyr: Er maður í valdastöðu sem á hreina sakaskrá, keyrir um á flottum bíl og býr í fallegu húsi, heiðarlegri og áreiðanlegri heldur en skuldum vafinn 3ja barna fráskilinn faðir sem er á atvinnuleysisskrá, og vann áður við að skúra gólf til að hafa ofan í sig og á? Er valdamaðurinn trúverðugri vegna stöðu sinnar í þjóðfélaginu?

Eftir að opið bréf mitt til embættismanns birtist fyrir skömmu, hafa mér borist ótal símhringingar, tölvupóstar, og gögn frá fólki (konum jafnt sem karlmönnum) þar sem fólk lýsir reynslu sinni af dómstólum og ákveðins embættismanns. Það er án nokkurs efa biðröð af fólki sem bíður eftir tækifæri á að koma fram með sín mál og tala. Fólk sem vill koma hinni hlið mála sinna á framfæri.

Þetta er án nokkurs efa málaflokkur sem þarf að fara kasta ljósi á, en einhverra hluta vegna er það þaggað niður, eða fjölmiðlar neita að fjalla um það vegna eðli þess, þ.e. á þeim grundvelli að þau séu svo viðkvæm. Það er enginn ósammála því að þessi mál séu ekki viðkvæm, einmitt þess vegna þarf að fjalla um þau. Þetta snertir nefnilega fleiri en bara meinta þolendur geranda.

Ég tek það hér fram áður en ég held áfram að ég er ekki að verja þá sem sannarlega hafa gerst brotlegir um misnotkun, og er hreint ekki að tala um þann hóp fólks. Ég er að tala um þá hlið þessara málefna að saklausir menn eru enn ásakaðir og jafnvel dæmdir í fangelsi fyrir kynferðisbrot sem þeir hafa ekki framið. Hvers vegna er aldrei talað um konur sem beita ofbeldi eða misnota? Þær eru svo sannarlega til staðar. En einhvern veginn er þessi málaflokkur hundsaður. Það er t.d. þekkt aðferð hjá konum sem standa í skilnuðum eða forræðisdeilum, að þær beita þeim ráðum oft á tíðum að saka fyrrum eiginmenn sína eða barnsfeður um ofbeldi eða misnotkun, þá annað hvort gegn sér eða börnum þeirra.

Mörg mál hafa komið upp í gegnum árin þar sem menn eru ásakaðir um kynferðislega misnotkun af konum og ungum stúlkum. Mörg mál hafa endað þannig að upp hefur komist um lygar kvennanna, og þær jafnvel hlotið dóm fyrir. En á móti hafa líka mál farið í gegn þar sem ósannsögli kvenna hefur ekki komið í ljós og menn þ.a.l. dæmdir á framburði einum saman, án nokkurra sannanna. Hvers konar réttarkerfi er það? Ég hef rætt við hina ýmsu lögfræðinga og þeir verið sannfærðir um að menn hafi verið dæmdir saklausir í fangelsi fyrir rangar sakagiftir. Sumir lögfræðingar vita hreinlega um ákveðna menn sem sitja eða hafa setið saklausir inni.

Þá spyr maður sig að því hvort fólk haldi raunverulega að dómskerfið okkar sé svo heilagt að ekkert óhreint fái þrifist þar? Eru dómarar heilagri en aðrir menn? Eru þeir ekki bara mennskir eins og ég og þú? Eða heldur almenningur að þeir séu guðir sem að aldrei geri mistök eða geti ekki tekið rangar ákvarðanir vegna þeirra eigin fullkomnunar? Geta dómarar ekki verið spilltir eins og ákveðnir pólitíkusar sem í skjóli valds síns geta leyft sér að halda hlífiskildi yfir „ákveðnum embættismanni“ vegna margra ára vináttutengsla byggða á .....................? Já nú megið þið áhugasömu giska.

Maður skyldi ætla að eftir síðastliðin ár hruns og uppljóstrana, þar sem alþjóð hefur orðið vitni að ótrúlegri spillingu innan og utan viðskiptakerfis okkar, að fólk væri orðið svolítið opnara fyrir þeirri staðreynd að hér á landi er stjórnsýslan ekki öll þar sem hún er séð. Hér kúra ófáir einstaklingar í embættum sínum undir verndarvængjum pólitískra fylgjenda sinna, og sitja þar sem fastast sama hversu vanhæfir þeir gera sig seka um.

Hundsaðar eru raddir ótal, ótal einstaklinga sem hafa ógrynni af upplýsingum um vanhæfni og ómannúðleg vinnubrögð af hendi „ákveðins embættismanns.“ Af hverju er þessum manni ekki vikið úr starfi og gerð ítarleg rannsókn á hegðun hans og vinnubrögðum í gegnum tíðina? Ef menn myndu leggjast yfir aðferðarfræðina sem þessi embættismaður notar til að loka meðferðarheimilum eða knésetja forstöðumenn, þá sæju menn það ljósara en hábjartan daginn hvað væri að gerast beint fyrir framan nefið á þeim. Og allt saman er þetta gert með blessun valdamanna á Íslandi.

Af hverju er ekki hlustað á það sem liggur í augum uppi þegar staðreyndir eru skoðaðar? Er það kannski af því að sannleikurinn sem liggur undir steininum er óþægilegur? Hvenær ætla menn og konur að fara sýna dug og hugrekki til að takast á við þessi mál og horfast í augu við staðreyndir? Erum við virkilega orðin það langt leidd í feminismanum, að konur eigi að komast upp með allt eingöngu af því þær eru konur?

Hvað á að rústa mörgum mannslífum í viðbót þar til eitthvað verður gert? Hver verður næstur? Þú? Sonur þinn? Maðurinn þinn?



Ágústa Ágústsdóttir Garði 2, Kelduhverfi.

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744