Húsavík - Julie Lænkholm sýnir í SafnahúsinuFréttatilkynning - - Lestrar 516
„Húsavík“ er yfirskriftin á einkasýningu Julie Lænkholm sem opnar á Safnahúsinu á Húsavík þann 13. ágúst og stendur til til 15. október.
Á sýningunni má sjá röð verka úr ull sem hefur verið þæfð og fest á gamlar dýnur. Ullina hefur Julie litað með íslenskum jurtum sem hún hefur tínt í nágrenni Húsavíkur. Ullarverkin eru byggð á ljósmyndum af íslensku landslagi en einnig á ljóðum eftir Julie og teikningum. Innblásturinn í verkin sækir Julie jafnframt í ullarverk Friðriku Sigurgeirsdóttur.
Sýningin opnar þann 13. ágúst með röð viðburða sem hefjast kl. 10 á reitnum milli Samkomuhússins og Öskju. Meðlimir í Kvenfélagi Húsavíkur, Leikfélagi Húsavíkur og Kirkjukór Húsavíkur annast flutning dagskrár ásamt hópi húsvískra barna. Klukkan 15:30 verður gestum boðið að ganga yfir í Safnahúsið og njóta verkanna sem þar eru staðsett á efstu hæð.
Gjörningurinn á Öskjureitnum byggir á röð viðburða sem Julie hélt í Safnahúsinu á fimmtudagskvöldum í júlímánuði. Þar kenndu Kvenfélagskonur Julie meðal annars að búa til blóm úr pappír. Þá tækni nýtti Julie til að búa til blóm úr bréfum frá ömmu sinni og ömmusystur. Segja má að sýningin hafi í raun hafist með viðburðaröðinni í júlímánuði þar sem Julie bauð íbúum Húsavíkur og nágrennis að gerast hluti af sýningunni.
Sýning Julie er sprottin úr rannsókn hennar á skjölum sem tengjast fjölskyldu hennar. Sum skjalanna eru geymd í Skjalasafni Þingeyinga en önnur eru í einkaeigu. Við rannsóknir sínar hefur Julie velt fyrir sér hinum kynjafræðilega þætti í fjölskyldusögu sinni þar sem mun meiri áhersla er lögð á líf og hlutverk karla en kvenna. Í þessu sambandi hefur Julie kynnt sér skrif Kristínar Loftsdóttur prófessors í mannfræði við Háskóla Íslands um kynjafræði og síðnýlenduhyggju. Með sýningu sinni gerir Julie tilraun til þess að komast nær formæðrum sínum, m.a. með því að safna gömlum dönskum þjóðlögum sem sungin voru við ýmis tækifæri og ljóðum sem samin voru af ættmæðrum hennar.
Dagskrá sýningaropnunar þann 13. ágúst:
Öskjureitur
10:00-18:00 Húsvísk börn búa til „merkingarstafla“ (meaning pile). Öllum börnum er velkomið að taka þátt í þessu verkefni!
14:00 Kirkjukór Húsavíkur syngur lag Péturs Guðjohnsen „Andvaken“ með nýjum texta eftir Julie Lænkholm.
14:30 Kvenfélag Húsavíkur flytur lagið „Án titils 2016“.
14:00-15:00 Meðlimir í Leikfélagi Húsavíkur birtast einhvern tímann á þessu bili!
Safnahús
15:30 Athöfn á efstu hæð Safnahússins. Boðið verður upp á kaffi og súkkulaði.