Húsavík er höfuðborg ástarinnar!

Leikfélag Húsavíkur hefur að undanförnu æft Söngleikinn Ást eftir þá Vesturportsfélaga Gísla Örn Garðarsson og Víking Kristjánsson.

Húsavík er höfuðborg ástarinnar!
Almennt - - Lestrar 382

Leikfélag Húsavíkur hefur að undanförnu æft Söngleikinn Ást eftir þá Vesturportsfélaga Gísla Örn Garðarsson og Víking Kristjánsson.

Söngleikurinn Ást er íslensk saga, sem tekur á ástinni á fjörugum nótum en – eins og vera ber – með alvarlegum undirtón. Víst er, að áhorfendur munu skemmta sér konunglega og finna til samúðar með persónum verksins – við þekkjum þau öll úr okkar umhverfi og tíma.

Nína birtist einn daginn á elliheimilinu og ætlar sér ekki að vera þar nema skamma stund – en svo hittir hún Grjóna og ástin fyllir líf þeirra – en það eru víst ekki allir ánægðir með það!

Með Söngleiknum Ást ætlar Leikfélag Húsavíkur i samvinnu við fyrirtæki í bænum og Húsavíkurstofu að gera Húsavík að sannkallaðri höfuðborg ástarinnar. Boðið verður uppá leikhúsferðir á vildarkjörum hvaðanæfa að frá Norður-­‐ og Austurlandi og gefst þar með óviðjafnanlegt tækifæri að kynnast höfuðborg Ástarinnar og nágrenni hennar.

Æfingar fara fram undir stjórn Jakobs S. Jónssonar, leikstjóra og Knúts Emils Jónassonar, tónlistarstjóra, en mikið er af sönglögum bæði innlendum og erlendum í leiknum. Það er þó nýmæli að fyrir sýningu Leikfélags Húsavíkur hefur þorrin af erlendu lögunum verið íslenskaður og lagaður að sýningunni. Erlendu lögin eru öll velþekkt, eftir höfunda á borð við John Lennon, Paul McCartney, Lou Reed og fleiri sæmdarmenn. Íslensku lögin eru eftir m.a. Valgeir Guðjónsson, Megas, Eyjólf Kristjánsson o.fl.

Stefnt er að frumsýningu laugardaginn 24. nóvember n.k. og mun vissara að tryggja sér miða í tíma, enda gekk Söngleikurinn Ást fyrir fullu húsi á sínum tíma á fjölum Borgarleikhússins.

Leikfélag Húsavíkur hefur í tilefni af uppsetningu Söngleiksins Ást efnt til samstarfs við ferðaþjónustuaðila á Húsavík og bjóðast leikhúsferðir á góðum kjörum frá gervöllu Norður-­‐ og Austurlandi og Reykjavík. Samvinnuaðilar eru Fjallasýn ehf., Veitingahúsið Salka, Foss Hótel Húsavík og flugfélagið Ernir. (Fréttatilkynning)


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744