JólahugvekjaAlmennt - - Lestrar 665
Gunnar Hallgrímsson frá Sultum, bóndi í Klambraseli, flutti hugvekju á aðventukvöldi í Grenjaðarstaðakirkju 9. desember sl. þar sem hann sagði frá för sinni frá Húsavík heim í Sultir á aðfangadag fyrir 50 árum.
640.is fékk góðfúslegt leyfi til að birta hana en hún segir okkur að margir hverjir leggja mikið á sig til að komast heim til að dvelja með sínum nánustu yfir jólin.
"Það mun hafa verið árið 1966, ég var þá 18 ára að ég réði mig á bát frá Húsavík. Það var róið með línu, við vorum þrír á bátnum en fjórir beittu í landi. Þetta var í október. Það var lítið róið í nóvember og desember vegna ótíðar.
Við fórum í síðasta róðurinn að kvöldi 22. desembers, línan var lögð einhverstaðar djúpt í Skjálfanda, byrjað var að draga línuna um morguninn, var þá veður sæmilegt en fór versnandi með deginum. Þegar við vorum búnir að draga línuna var komið hvassviðri með snjókomu, nú var að finna höfnina á Húsavík því engin tæki voru í bátnu að styðjast við nema kompás og dýptarmælir. Lítið sást frá bátnum vegna snjókomu. Skipstjórinn sem var kallaður Siggi Valli sá smá leiftur og vissi þá að þetta var ljós frá vitanum á Húsavíkurhöfða og þá var eftirleikurinn auðveldur.
Þegar við vorum búnir að landa fiskinum og ganga frá bátnum var komið kvöld, Þorláksmessukvöld. Ég var ákveðinn í því að komast heim fyrir jólin en vissi sem var að vegurinn fyrir Tjörnes væri orðinn ófær. Ég fór að hitta kunningja minn sem hét Þórarinn Steingrímsson í Ytri-Tungu, við höfðum unnið saman í Síldarverksmiðjunni á Húsavík sumarið 1965. Þórarinn var að vinna á Húsavík en var búinn að segja mér að hann ætlaði heim fyrir jól. Það var sem ég vissi, Þórarinn sagði mér að gilin væru ófær og við yrðum að ganga útí Ytri-Tungu. Hann taldi ekki útilokað að væri hægt að fara með mig á bíl þaðan og austur undir Máná. Við ákváðum að hittast við Shell skálann klukkan 9 um morguninn.
Ég bjó hjá Ólöfu systur minni en hún bjó á Fossvöllum 10 með fjölskyldu sinni. Henni leist ekki á þetta ferðalag en ég lét ekkert stoppa mig. Við Þórarinn hittumst um morguninn og lögðum af stað, veður var þannig: hvöss norðaustan átt og gekk á með dimmum éljum. Við köfuðum snjóinn upp leitið með vindinn í fangið. Göngufærið var gott eftir að við komum uppá leitið, snjólaus vegur þar til við komum að Kvíslárgili. Þar var mikill snjór, þannig var í öllum giljunum, en auður vegur milli gilja.
Við komum í Ytri-Tungu uppúr hádegi, þar var mér boðið uppá kaffi og smákökur. Síðan leggja þeir feðgar af stað með mig á Willis jeppanum hans Steingríms, allt gekk vel, enginn snjór í brattanum vestan við Máná en er við komum að Knarrarbrekku austan við Máná var ljóst að lengra yrði ekki komist á bíl. Ekki var um annað að ræða en að kveðja þá feðga, ég þakkaði þeim fyrir, það munaði miklu að þurfa ekki að ganga þessa leið.
Veðrið hafði batnað, aðeins norðaustan gola og það var hætt að snjóa. Nú var farið að dimma en fullur máni óð í skýjum. Ég kafaði skaflinn í Knarrarbrekkunni og eftir það var gott göngufæri eftir veginum, nú var ég orðinn einn og herti á göngunni og var fljótur inn að Skeiðsöxl, þaðan sást yfir allt Öxarfjarðarhérað. Það var komið logn, bjartur himinn með stjörnum og tunglið lísti upp fjörðinn þar sem breiðar öldur sigu hægt inn og það var úr þeim allur kraftur.
Það er gott að láta hugann reika þegar maður er einn á göngu. Fór að hugsa um fólkið í sveitinni sem ég þekkti allt með nafni. Suma þekkti ég betur en aðra persónulega, nú eru bændurnir trúlega að sinna skepnum sínum áður en jólahátíðin gengur í garð, gefa hey á garða og í jötur og mjólka kýrnar. Síðan fara þeir inn og þrífa sig og raka, bera á sig Old Spice rakspíra úr glasinu sem þeir fengu í jólagjaf í fyrra og spara það ekki. Kannski fá þeir annað glas í kvöld.
En konurnar, hvað skyldu þær vera að gera? Auðvitað eru þær að elda jólamatinn, rjúpur og hangikjöt eða eitthvað annað, þær hafa trúlega í nógu að snúast. Mér var hugsað til einbúanna, vissi um tvo menn sem bjuggu einir, hvað ætli þeir séu með í matinn? Það rifjaðist upp fyrir mér saga af öðrum þeirra, hann var þá með ráðskonu sem kölluð var Jóa litla. Ég sá hana þegar ég var strákur og var starsýnt á hana vegna þess hve agnarsmá hún var, þau voru með rjúpur í jólamatinn - þetta er nú ekki rétt hjá mér því þau voru með rjúpu í matinn. Óli, en svo hét einbúinn, borðaði bringuna en Jóa litla borðaði afturpartinn þ.e.a.s. Rassinn og lærin. Jóa litla hefur verið mjög neyslugrönn. Svona lét ég hugann reika á meðan ég gekk og gekk og nálgaðist takmark mitt það að komast heim.
Var kominn að Bangastöðum þar var búskap hætt 1953. Eftir stóðu tættir af húsum og minnti mann á það að þarna hafi búið fólk við kröpp kjör. Það var ótrúlega bjart af tunglskini enda alhvít jörð af nýjum snjó. Fór að rifja upp hvað fjöllin hétu, byrjaði á austurfjöllunum – Þverárhyrna, Sandfell og Hafrafell og í suðri sá ég móta fyrir Þeystarreykjabungu. Síðan voru það fjöllin suðvestan og ofan við mig- Þríklakkur, Sauðafell og Barnahnjúkur. Afi minn sagði mér að það héti Barnahnjúkur vegna þess að fyrir löngu hefðu tvö börn villst frá Húsavík í vondu veðri um hávetur, það var mikið leitað en þau fundust ekki fyrr um vorið uppá þessum hnjúk, þar höfðu þau orðið úti. Síðan heitir hnjúkurinn barnahnjúkur. Stutt frá Barnahnjúk er annað fjall sem heitir Jarpkollupollafjall, ekki veit ég hvers vegna það heitir þessu nafni en þetta er ótrúlegt nafn á fjalli.
Ég er kominn að Gerðibrekkunni, í henni er mikill snjór eins og vænta mátti, þegar ég er kominn niður Gerðibrekkuna er greið leið, enginn snjór á veginum sem liggur nú uppá við. Er kominn upp hallann og að Imbuþúfu, afi sagði mér að hún héti þessu nafni vegna þess að það hafi verið kona þarna á ferð í stórhríðarveðri og farið þarna fram af bjarginu en hún var kölluð Imba. Ég spurði afa hvert konan hefði verið að fara “ekki veit ég það nafni hvaðan hún kom eða hvert hún var að fara en hún fór ekkert lengra. Hún lést við að fara þarna niður. Þetta er langt síðan” sagði hann en sagan lifir.
Nú var fari að styttast í brekkubrúnina fyrir ofan Auðbjargarstaði og það glaðnaði yfir mér þegar ég sá ljós í glugga, þarna bjuggu þá afi minn Gunnar og sonur hans Bjarni. Mikill snjór var í brekkunni, eftir að hafa kafað snjóinn efst í brekkunni beygði ég út af veginum og renndi mér á rassinum alveg niður á tún, þá var orðið stutt heim að bænum. Afi tók á móti mér fagnandi, var búinn að frétta að ég væri á leiðinni. Ólöf systir mín hafi hringt um morguninn heim til að láta vita að ég væri lagður af stað.
Afi sagði að það væri bílfært frá Auðbjargarstöðum og heim að Sultum, ég fór í símann sem var að sjálfsögðu sveitasími hringdi eina langa, eina stutta og tvær langar. Sigga systir mín svaraði og sagði að ég yrði sóttur. Pabbi og Indi komu á nýja Land Rovernum hans Inda og það var ljúft að setjast uppí hann og bruna heim, mér var tekið fagnandi af móður og yngri systkinum, eldri systur mínar voru fluttar að heiman. Klukkan var hálf sjö, jólamaturinn kominn á borðið og mikið var gott að vera kominn heim". Sagði Gunnar að lokum og óskaði viðstöddum í Grenjaðarstaðakirkju friðsælla og gleðilegrar jólahátíðar.
Öxarfjörður og austurfjöllin Þverárhyrna, Sandfell og Hafrafell fyrir miðri mynd.
Séð heim að Sultum.
Sultir í Kelduhverfi, upp í vinstra horni myndarinnar má sjá móta fyrir Auðbjargarstaðabrekkunni og fyrir neðan lúra Auðbjargarstaðir þangað sem Gunnar kom gangandi frá Knarrarbrekku austan Mánár.