Vegleg gjöf til HSN á HúsavíkAlmennt - - Lestrar 851
“Það er ómetanlegt fyrir stofnunina að eiga svona hauka í horni, hvort sem það eru styrktarfélög, góðmenni út í bæ eða stórmenni úr Kelduhverfinu”. Sagði Ásgeir Böðvarsson yfirlæknir sjúkrasviðs HSN á Húsavík þegar Benedikt Ó. Sveinsson læknir frá Víkingavatni afhenti á dögunum veglega gjöf sína til stofnuninnar.
Benedikt var lengi vel sjálfstætt starfandi sérfræðingur í kvenlækningum og hætti rekstri stofu sinnar í Reykjavík í lok síðasta árs. Gjöfin er öll þau tæki, búnaður og tól sem tilheyrðu stofunni og eru þau eru nú uppsett í einu herbergi á HSN og leysa eldri tæki af hólmi.
Auk þess að nýtast kvensjúkdómalækni nýtist það líka fyrir þvagfæraskurðlækni sem kemur hér reglulega. Þá nýtist það einnig við mæðraverndina. Sannkallað fjölnotaherbergi eins og Ásgeir orðaði það.
"Þegar ég opnaði stofuna 1990 gerði ég við mig samning um að reka stofuna í 25 ár ef mér entist aldur og heilsa til sem ég og gerði. Ég vissi ekkert hvað ég átti að gera við það sem henni tilheyrði þegar ég lokaði og snéri mér að öðrum verkefnum.
Ég hef alltaf haft taugar til þessa svæðis, á reyndar lögheimili á Víkingavatni og er þar öllum stundum þegar ég á frí, og hafði því samband við Ásgeir og spurði hvort ég mætti ekki senda þetta hingað". Sagði Benedikt en hann starfaði við Sjúkrahúsið á Húsavík 1978-1980 og aftur síðari hluta ársins 2006.
Benedikt fékk bæði kossa og blóm fyrir höfðingskapinn.
Allur búnaður í herberginu, að undanskildu einu ómskoðunartæki, er frá Benedikt kominn.
Fv. Ingunn Indriðadóttir hjúkrunarfræðingur, Ásgeir Böðvarsson yfirlæknir, Alexander Smárason kvensjúkdómalæknir, Lilja Skarphéðinsdóttir ljósmóðir og Sigríður Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur ásamt Benedikt en þau hafa öll starfað með honum á Sjúkrahúsinu á Húsavík. Þau eru í herberginu þar sem allur búnaður sem þar er, að undanskildu einu ómskoðunartæki, er frá Benedikt kominn.
Með því að smella á myndirnar er hægt að fletta þeim og skoða í stærri upplausn.