Lætur staðar numið eftir að hafa keyrt yfir 4000 ferðir milli Húsavíkur og ReykjavíkurAlmennt - - Lestrar 1258
Allt tekur enda í heimi hér og í morgun kom Bjarni Sveinsson flutningabílstjóri úr síðustu ferð sinni milli Húsavíkur og Reykjavíkur.
Aðspurður sagðist Bjarni ekki hafa skrifað hjá sér ferðirnar í gegnum tíðina. Þær eru á fimmta þúsund ferðirnar enda spannar ökumannsferillinn yfir 40 ár.
Bjarni tók meiraprófið árið 1974 og þegar hann kom út af sýsluskrifstofunni með skírteinið í höndunum beið hans fulllestaður steypubíll frá Varða hf., hann stökk upp í bílinn og keyrði fyrir Varða hf. í tvö ár.
Árið 1976 fór Bjarni til Aðalgeirs Sigurgeirssonar hf. og hefur upp frá því og fram á þennan dag keyrt leiðina milli Húsavíkur og Reykjavíkur, síðustu ellefu árin fyrir Eimskip-Flytjanda.
Bjarni kom úr síðustu ferðinni í nótt eftir að hafa keyrt á milli Húsavíkur og Reykjavíkur í rúm fjörutíu ár.