Grái herinn hnyklar vöðvana

Framsýn stéttarfélag stendur fyrir opnum fundi um starfslok og önnur málefni eftirlaunafólks á Fosshótel Húsavík, laugardaginn 4. mars. Fundartími kl.

Grái herinn hnyklar vöðvana
Fréttatilkynning - - Lestrar 556

Framsýn stéttarfélag stendur fyrir opnum fundi um starfslok og önnur málefni eftirlaunafólks á Fosshótel Húsavík, laugardaginn 4. mars. Fundartími kl. 11:00 til 13:00.

 

Málefni eldri borgara hafa töluvert verið í umræðunni undanfarið, ekki síst vegna frumkvæðis Gráa hersins sem tónlistarmaðurinn Helgi Pétursson hefur farið fyrir. Málflutningur Gráa hersins hefur vakið mikla athygli og náð eyrum almennings enda full þörf á því að tekið sé á málefnum þessa hóps sem verðskuldar virðingu og réttlæti.

Þá hefur verið komið á laggirnar heimasíðu www.lifdununa.is. Markmiðið með rekstri vefsíðunnar er  að gera líf og störf  þeirra landsmanna sem eru komnir um og yfir miðjan aldur sýnilegri en þau eru, auka umræðu um þau málefni sem tengjast þessu æviskeiði og lífsgæði þeirra sem eru komnir á þennan aldur. Fjölmennustu árgangar Íslandssögunnar eru  að eldast og innan 10 til 15 ára, mun fjölga verulega í þeim hópi sem verður 55 ára og eldri. Þessi hópur er núna um 78.000 manns, en eftir rúmlega 15 ár, verða um 113.000 manns í honum. Það er fjölgun um 35.000 manns eða um 45% fjölgun frá því sem nú er.  Árið 2050 verður um fjórðungur landsmanna kominn á eftirlaun.

Það er ekki að ástæðulausu sem Framsýn telur ástæðu til að boða til fundar um þetta mikilvæga mál. Auk Helga munu tvær öflugar heimakonur fjalla annars vegar um stöðu eldra fólks á vinnumarkaði og starf Félags eldri borgara á Húsavík sem er afar öflugt. Þetta eru þær Anna Sigrún Mikaelsdóttir og María Axfjörð. Framundan er áhugaverður fundur á Fosshótel Húsavík á laugardaginn.

Eins og fram hefur komið verða gestir fundarins Helgi Pétursson, María Axfjörð og Anna Sigrún Mikaelsdóttir.

Helgi Pétursson sem kenndur er við Ríó Tríó og fer fyrir Gráa hernum baráttusamtökum eftirlaunafólks mun fjalla um stöðu fólks á eftirlaunum á Íslandi. Grái herinn hefur fengið mikla athygli fyrir málefnalega og skarpa umræðu um stöðu eftirlaunafólks.

María Axfjörð mun fjalla um störf aldraðra, það er að vera komin yfir sextugt- atvinnumissi, atvinnuleit og atvinnumöguleika fólks á þessum aldri.

 Anna Sigrún Mikaelsdóttir mun fjalla um starfsemi Félags eldri borgara á Húsavík en starfsemi félagsins er afar öflugt um þessar mundir.

Tökum dagstundina frá og fjölmennum á fundinn á laugardaginn enda mikilvægt að fólk sem náð hefur 60 ára aldri standi vörð um velferð sína á efri árum. Boðið verður upp á súpu, brauð, kaffi og te á fundinum. 

 Framsýn, stéttarfélag Þingeyinga

 

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744