Frjálsíþróttaskóli UMFÍ á Laugum

Þessa vikuna stendur yfir frjálsíþróttaskóli Ungmennafélags Íslands, UMFÍ á Laugum í Reykjadal og hafa um 20 krakkar dvalið á Laugum og lagt kapp á

Frjálsíþróttaskóli UMFÍ á Laugum
Almennt - - Lestrar 173

Þórey Edda hitar upp með krökkunum
Þórey Edda hitar upp með krökkunum

Þessa vikuna stendur yfir frjálsíþróttaskóli Ungmennafélags Íslands, UMFÍ á Laugum í Reykjadal og hafa um 20 krakkar dvalið á Laugum og lagt kapp á ýmiskonar hreyfingu. Frjálsar íþróttir eru alhliða hreyfing og góð útivera enda kjörorð UMFÍ frá árinu 1907, ræktun lýðs og lands.  UMFÍ starfrækir frjálsíþróttaskóla víðs vegar um landið í sumar. Markmiðið með skólanum er kennsla í ýmsum greinum og byggja upp þrek.

 

Auk þess sem nemendur skólans stunda frjálsar íþróttir fara fram kvöldvökur, gönguferðir og fleira spennandi. Nemendur gista í Litlulaugaskóla. Kennari við skólann á Laugum er Valgerður Jónsdóttir frá Hömrum auk þess sem gestakennarar heimsækja skólann. Í dag heimsótti skólann Þórey Edda Elísdóttir, stangastökkvari og verðlaunahafi í frjálsum íþróttum og báru krakkarnir mikla virðingu fyrir henni. Hún sýndi þeim m.a. grunninn í stangastökki og hvernig best væri að halda á stönginni til að ná góðum árangri. Krakkarnir voru ánægðir með dvölina og fannst spennandi að hitta Þórey Eddu. Valgerður segir að skólinn hafi gengið vel og krakkarnir verið mjög duglegir.

 

Um næstu helgi fara fram Sumarleikar HSÞ eða Héraðssambands Þingeyinga, á Laugum. Leikarnir eða mótið er meðal stærstu íþróttaviðburða innan HSÞ en þá keppa aðildarfélög innan HSÞ sín á milli í stigakeppni.

 

 

 

 

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744