Fréttir af starfi Soroptimistaklúbbs Húsavíkur og nágrennis

Soroptimistaklúbbur Húsavíkur og nágrennis sendi eftirfarandi fréttabréf til birtingar á 640.is:

Soroptimistaklúbbur Húsavíkur og nágrennis sendi eftirfarandi fréttabréf til birtingar á 640.is:

Ágætu lesendur.

Í byrjun janúarmánaðar fengum við  fréttir sem yljuðu okkur systrum um hjartarætur.

Lítill sólargeisli inn í skammdegismyrkrið. Verkefni klúbbsins „ Finndu þinn eiginn styrk“, sjálfstyrkingarnámskeið fyrir 12-13 ára stúlkur var valið verkefni mánaðarins af Soroptimistasambandi Evrópu (SIE). Þetta er mikill heiður fyrir okkar litla klúbb norður á hjara veraldar og hvatning til að halda þessu verkefni vakandi. Lögð er mikil áhersla á að klúbbar sendi skýrslu um verkefni sem unnin eru til SIE árlega.

Varðandi verkefnið okkar hafa þrjú helgar námskeið verið haldin í Þingeyjarskóla þar sem stúlkurnar dvelja á meðan á námskeiði stendur, í umsjón og gæslu okkar systra. Það fyrsta var haldið haustið 2017. Covid setti strik í reikninginn á síðasta ári en við reiknum með að halda ótrauðar áfram þegar styttir upp.

Við fengum í lið með okkur góða námskeiðshaldara, þær Ingibjörgu Þórðardóttur félagsráðgjafa og Sigríði Ástu Hauksdóttir náms-, starfs- og fjölskylduráðgjafa. Svona námskeið kosta að sjálfsögðu skipulag, vinnu og fjármagn.

Þingeyingar hafa verið afar jákvæðir í okkar garð. Þingeyjarsveit hefur sýnt okkur mikinn velvilja, fyrirtæki á svæðinu lagt til matvöru, nokkur kvenfélög í nágrannabyggðum hafa einnig veitt okkur styrki og síðast en ekki síst, einstaklingar keypt  af okkur álfinn en ágóðinn af þeirri sölu hefur runnið til þessa verkefnis, ásamt öðrum fjáröflunum.

Einnig hlutum við  styrk til verkefnisins frá Lýðheilsusjóði eitt árið. Þetta er lítið samfélagsverkefni sem við vonum að gefi þessum ungu telpum smá veganesti til framtíðar í flóknum heimi.

Fyrir þá lesendur sem ekki vita fyrir hvað Soroptimistar standa, erum við samtök kvenna um allan heim sem láta sig málefni kvenna og stúlkna varða, vilja stuðla að jafnrétti og frið öllum til handa.

Fyrsti klúbburinn var stofnaður í Oakland í Kaliforniu árið 1921, eða stuttu eftir að fyrri heimsstyrjöldinni lauk. Soroptimistar eru starfsgreinasamtök þar sem leitast er við að  hafa fulltrúa sem flestra starfsstétta.

Fyrsti klúbburinn á Íslandi var stofnaður árið 1959 í Reykjavík. Soroptimistaklúbbur Húsavíkur og nágrennis var stofnaður árið 1983. Innan Alþjóðasambands Soroptimista (SI) eru fjögur heimshlutasambönd og eru félagar um 80.000 í um 127 löndum.

Soroptimistasamband Íslands (SIÍ) tilheyrir Soroptimistasambandi Evrópu (SIE), sem er eitt heimshlutasambandanna. Soroptimistaklúbbar á Íslandi eru 18 með um 600 konum sem allir eru að vinna að ýmsum áhugaverðum verkefnum.

Bestu kveðjur frá Soroptimistaklúbbi Húsavíkur og nágrennis


  • Steinsteypir

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744