Framsýn lýsir yfir megnri óánægju með afstöðu ríkisstjórnarinnarAðsent efni - - Lestrar 350
Á fundi stjórnar Framsýnar-stéttarfélgas í gær var eftirfarandi ályktun um uppbyggingu álvers á Bakka samþykkt samhljóða:
Framsýn- stéttarfélag lýsir yfir megnri óánægju með afstöðu ríkistjórnarinnar til uppbyggingar álvers á Bakka við Húsavík. Ljóst er að ákvörðun stjórnvalda um að skrifa ekki undir viljayfirlýsingu meðheimamönnum og Alcoa varðandi uppbyggingu álvers á Bakka er reiðarslag fyrir Þingeyinga. Ekki síst á sama tíma og atvinnulausum fer fjölgandi og hundruð milljóna flæða út úr ríkisjóði í atvinnuleysisbætur.
Framsýn krefst þess að stjórnvöld endurskoði afstöðuna með það að markmiði að blása nýju lífi í atvinnuuppbyggingu og þar með búsetu í Þingeyjarsýslum og reyndar Norðurlandi öllu.
Heimamenn og samstarfsaðilar hafa unnið heiðarlega að verkefninu og sett verulega fjármuni í það í fullu samráði við stjórnvöld á hverjum tíma. Með ákvörðun stjórnvalda nú, hafa þau brugðist öllu trausti og þar með samstarfsaðilum. Slíkt er með öllu óþolandi og kemur sveitarfélaginu Norðurþingi, Orkuveitu Húsavíkur og íbúum svæðisins í mjög slæma stöðu. Því þarf engan að undra að stéttarfélag, sem hefur yfir 2000 félagsmenn, hafi áhyggjur af stöðunni og framtíðarhorfum. Framsýn vill því blása til sóknar með raunhæfum aðgerðum í atvinnumálum, íbúum og þjóðfélaginu tilhagsældar.