Framhaldsskólinn á Laugum í fararbroddi!Almennt - - Lestrar 211
Á síðasta ári kom út hjá hinu virta útgáfufyrirtæki Rowman & Littlefield í Bandaríkjunum bókin Breaking the Mold of School Instruction and Organization: Innovative and Successful Practices for the 21st Centuryen bókin fjallar, eins og nafnið bendir til, um brautryðjendastarf í skólamálum.
Einn kaflinn í bókinni sem ber heitiðProviding Students with Uninterrupted Learning Experiences: A Success Story from Icelandog fjallar um kennsluhætti í Framhaldsskólanum á Laugum. Höfundur kaflans er Ingvar Sigurgeirsson prófessor við kennaradeild Háskóla Íslands en hann hefur um nokkurt skeið fylgst með þróun skólastarfs á Laugum og heimsótt skólann reglulega.
Í bókinni segir Ingvar frá megineinkennum starfsháttanna að Laugum, sem m.a. byggjast á því að skólinn líkist sem mest vinnustað þar sem nemendur vinna að verkefnum sínum undir verkstjórn kennara.Markmiðið er m.a. að gera nemendur ábyrgari fyrir námi sínu. Hefðbundnum kennslustundum hefur verið fækkað en þess í stað vinna nemendur samkvæmt einstaklingsbundinni áætlun í opnum vinnurýmum (vinnustofum). Áhersla er lögð á samfelldan skóladag og að nemendur geti lokið námi sínu að mestu á venjulegum vinnutíma. Þá hefur persónuleg leiðsögn við nemendur verið sett á oddinn, sem og fjölbreyttar kennsluaðferðir, leiðsagnarmat og að nýta upplýsingatækni með markvissum hætti í náminu.
Þeim sem áhuga hafa á að lesa um þetta starf á móðurmálinu má benda á grein í tímaritinu NETLU sem Ingvar skrifaði í samstarfi við skólameista og þrjá af kennurum skólans. Greinin ber heitið „Það kemur ekki til greina að fara til baka“ Sveigjanlegt námsumhverfi í Framhaldsskólanum á Laugum. Greinina er að finna á þessari slóð: http://netla.khi.is/greinar/2008/003/index.htm