Erum við "Ljótu hálfvitarnir" ?

FELAST tillögur ríkisstjórnarinnar í að fórna lífsafkomu þjóðarinnar fyrir „eitthvað annað“?   Ég veit það ekki. Í aðdraganda að einu mesta

Erum við "Ljótu hálfvitarnir" ?
Aðsent efni - - Lestrar 894

Guðbjartur Ellert Jónsson.
Guðbjartur Ellert Jónsson.

FELAST tillögur ríkisstjórnarinnar í að fórna lífsafkomu þjóðarinnar fyrir „eitthvað annað“?

 

Ég veit það ekki. Í aðdraganda að einu mesta framfaraspori í þágu lands og þjóðar situr ríkisstjórnin föst í afneitun, ákvörðunarfælni og aðgerðar- og framkvæmdaótta. Stefnuleysið er svo algjört að meirihluta þjóðarinnar ofbýður. Nú þegar hefur ríkisstjórnin tekið þá ákvörðun að framlengja ekki viljayfirlýsingu milli ríkisins, Norðurþings og Alcoa um byggingu álvers á Bakka.

 

Ríkið hefur verið aðili að þessu verkefni allar götur frá árinu 2006. Í ljósi þess er illmögulegt að skilja þennan viðsnúning í málinu. Sérstaklega í ljósi þess hver staða okkar Íslendinga er í efnahagsmálum. Það var kannski aldrei vilji fyrir því að ljúka þessu verkefni? Þegar betur er að gáð hafa umhverfisráðherrar og iðnaðarráðherrar ávallt staðið í vegi fyrir framgangi verkefnisins. Þvílík sýndarmennska sem boðið hefur verið upp á. Norðlendingar hafa ekki farið fram á annað við þingmenn og ráðherra en heilindi. Jafnvel þó afstaða VG hafi ávallt verið neikvæð gagnvart álversuppbyggingu þá skýtur það skökku við að verkefni sem hófst á árinu 2006 skuli enda með þessum hætti. Það lá fyrir að þessi ríkisstjórn ætlaði ekki að stöðva þau verkefni sem þegar var byrjað á.

 

Fyrir okkur sem búum á Norðausturlandi þá virðist það skipta ríkisstjórnina verulegu máli hvar fyrirhugaðar framkvæmdir eru staðsettar á landinu. Þessari ríkisstjórn finnst allt í lagi að svíkja þau loforð sem gefin voru við myndun ríkisstjórnarinnar, svo fremi að það hafi ekki áhrif að suðvesturhorn landsins. En til að koma til móts við landsbyggðina er bent á „eitthvað annað“ án þess þó að geta gert einhverja grein fyrir hvað það er. Stórum og öflugum fjárfesti, eins og Alcoa, er hent fyrir róða og í raun fórnað vegna stefnu eins lítils flokks. Það vekur furðu ef einn smáflokkur á Íslandi getur komið í veg fyrir vilja meirihluta þjóðarinnar og stórlega skaðað lífsafkomu landsmanna. Er það eðlilegt? Nú er ríkisstjórnin búin að smíða „aðgerðaráætlun“ sem miðast fyrst og fremst við stórframkvæmdir á suðvesturhorni landsins. Það á að byggja hátæknisjúkrahús, tónlistarhöll, samgöngumiðstöð, stækka álverið í Straumsvík, byggja upp álver í Helguvík, reisa gagnaver á Suðurnesjum og ráðast í virkjanaframkvæmdir við Búðarháls. Allar þessar framkvæmdir eru mannaflsfrekar en engin þeirra mun skapa sérstakar þjóðartekjur nema þá þær einu sem snúa að álvers- og orkuframkvæmdum. Öll þessi uppbygging fer fram á suðvesturhorni landsins. Er þetta eðlilegt? Þetta er ein mesta aðför að landsbyggðinni frá upphafi. Landsbyggðin er búin að þjást í áratugi. Fólksfækkun og hrun í atvinnumálum hafa verið aðaleinkenni landsbyggðarinnar svo árum skiptir og svo er ríkisstjórnin núna með einhverjar hugmyndir um „eitthvað annað“.

 

Það er alveg ótrúlegt að ríkisstjórnin skuli ekki hafa tekið því fegins hendi og nýtt það tækifæri að ljúka verkefninu um álver á Bakka með einu sterkasta fyrirtæki sem völ er á í heiminum. Verkefnið um álver á Bakka er best til þess fallið að örva hér efnahagslífið landsmönnum og þjóðinni til heilla. Er þessi framgangur ríkisstjórnarinnar eðlilegur? Fyrir hönd íbúa á Norðausturlandi vil ég þakka, sérstaklega Össuri Skarphéðinssyni og Katrínu Júlíusdóttur sem og öðrum þingmönnum og ráðherrum Samfylkingarinnar, fyrir viðmót og stuðning þeirra – þið hafið svo sannarlega sýnt okkur íbúum hér fyrir norðan hver vilji ykkar er. Össur mætti til Húsavíkur sem iðnaðarráðherra á síðasta ári og sagði: „Þið getið treyst á mig“. Katrín, núverandi iðnaðarráðherra, hefur staðfest í viðtali að þetta „annað“ er ekki til.

 

Fram að þessu hafa þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar verið iðnir við að heita stuðningi við verkefnið. Hver stuðningsyfirlýsingin á fætur annarri hefur litið dagsins ljós en hefur ekki haft nokkurt gildi. Er þetta virðingin sem er borin fyrir landsmönnum? Eru þetta heilindin sem Samfylkingin vill kenna sig við? Afsakanir og aðgerðarleysi duga ekki né fögur fyrirheit um „eitthvað annað“. Nú þegar búið er að vinna að þessu verkefni í nær 4 ár ber svo við að ríkisstjórnin veit ekki hvað hún ætlar sér að gera. Jú, við hér á Norðausturlandi vitum að það eru uppi hugmyndir um að nýta orkuna í Þingeyjarsýslum í „eitthvað annað“. En hvað þetta „annað“ er vitum við ekkert um.

 

Nú er tími kominn að efna þau loforð sem gefin hafa verið. Tal um „eitthvað annað“ nægir okkur ekki. Nú er gerð krafa um afstöðu og ákvörðun. Nú er tækifæri til að standa við stóru orðin – sýna í verki hvaða hugur fylgdi öllum loforðum sem gefin hafa verið. Álver á Bakka er eina raunhæfa verkefnið og því ábyrgðarleysi að hafna slíku verkefni. Það er eðlileg krafa að við, hér á landsbyggðinni, fáum að vita fyrir hvað þið standið. Við erum ekki „Ljótu hálfvitarnir“ við erum einfaldlega að berjast fyrir tilveru okkar og því algjörlega óásættanlegt að þurfa að glíma við ríkisstjórn Íslands í þeirri baráttu.

 

Höfundur er fjármálastjóri – staðgengill sveitarstjóra.

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744