Aftaka í boði ríkisstjórnarinnar

Það er með eindæmum hvernig þessi ríkisstjórn ætlar að beygja Þingeyinga og aðra Norðlendinga og um leið að ganga endanlega frá mögulegri uppbyggingu

Aftaka í boði ríkisstjórnarinnar
Aðsent efni - - Lestrar 544

Guðbjartur Ellert Jónsson.
Guðbjartur Ellert Jónsson.

Það er með eindæmum hvernig þessi ríkisstjórn ætlar að beygja Þingeyinga og aðra Norðlendinga og um leið að ganga endanlega frá mögulegri uppbyggingu atvinnu- og mannlífs hér fyrir norðan. Hugmyndafræði, málflutningur, framgangur og rök ráðherra og þingmanna eru ótrúleg. Í fyrsta lagi hugnast ríkisstjórninni ekki að vinna og nýta þá orku, sem hugsanlega finnst á háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum í orkufrekan iðnað. Heldur verður þeim tíðrætt um að nýta orkuna í „eitthvað annað“. Þvert á vilja heimamanna sem hafa í áratugi búið við ástand kreppu og samdráttar.

 

Í öðru lagi hefur framganga þeirra, umræða og meðferð málsins skaðað alla íbúa í Þingeyjarsýslum. Hvar liggur ábyrgðin? Þekkingarleysi, skilningsleysi og framkvæmdaleysi einkennir þessa ríkisstjórn. Þessi ríkisstjórn hefur leitt til þess að fólk íhugar brottflutning. Þetta er grátlegt en því miður staðreynd málsins. Það er búið að hafa íbúa hér að fíflum. Ef þetta er pólitíkin sem bjóða á upp á, Guð blessi þjóð og land.

 

Ef teknar eru til nánari skoðunar umfjallanir og ummæli þingmanna og ráðherra Samfylkingarinnar, sérstaklega þegar þeir hafa látið sjá sig á Húsavík, hafa þeir staðfastlega lofað stuðningi við verkefnið um álver við Bakka. Hvar eru heilindi manna, trúverðuleiki og heiðarleiki nú þegar sömu aðilar snúa baki við því fólki sem þeir færðu þessi loforð. Það skyldi þó ekki vera að Samfylkingin hefði notað þetta verkefni sem skiptimynt þegar stjórnarsáttmálinn var gerður milli Samfylkingarinnar og VG? Og hvernig má það vera að meðhöndlun ríkisins á þessu verkefni lúti allt öðrum lögmálum en önnur sambærileg verkefni á landinu? Það skyldi þó ekki vera vegna þess að önnur verkefni eru til uppbyggingar á suðvesturhorni landsins? Maður óneitanlega spyr sig að hinu og þessu nú þegar fer að líða að því að ríkisvaldið þurfi að taka ákvörðun. Ég geri þó ráð fyrir að rökfærslur ríkisstjórnarinnar fyrir ákvörðun sinni vanti ekki þar sem það virðist vera eina listin sem kunna þarf í pólitík. Ég reyndar býst einnig við því að ríkisstjórnin nái að telja landsmönnum trú um að „eitthvað annað“ sé það besta.

 

VG hefur alfarið verið mótfallið álversuppbyggingu á landinu og er svo sem ekkert við það að athuga. Þetta er skoðun og sjónarmið sem ber að virða. En vandamálið er að löngu áður en VG komst í ríkisstjórn var verkefnið um álver við Bakka komið á og allir sem að því komu þá með ákveðna stefnu sem bundin var í viljayfirlýsingu.

 

Nú þegar er búið að eyða umtalsverðum fjármunum í verkefnið. Stefnumörkun hefur legið fyrir frá upphafi þar sem verkefnið var vel skilgreint og bundið við upphaf og endi. Til að verkefnið verði að veruleika þarf að finna orku. Þetta er einfalt verkefni, vel skilgreint og hefur verið unnið af mikilli fagmennsku allra aðila. En því miður hefur stjórnvöldum tekist með íhlutun sinni að gera framgang verkefnisins óbærilegan og dýran, fyrir utan að misbjóða íbúum á Norðausturlandi.

 

Nú þegar dregur að því að taka þurfi ákvarðanir snýst málflutningur VG út á „eitthvað annað“. Hvorki fjölmiðlum né almenningi hefur tekist að fá upplýsingar um hvað þetta „annað eigi að vera“.

 

Jú, það hefur verið bent á gagnaver, kísilflöguverksmiðjur og eitthvað fleira. Ryki er slegið í augu almennings í landinu og gefið til kynna að einhver erlend fyrirtæki ætli sér að ráðast í stórtækar og mannaflsfrekar framkvæmdir á landsbyggðinni. Raunveruleikinn er sá að þetta eru eingöngu athuganir hjá þessum aðilum en fáir þeirra eru tilbúnir að fjárfesta á eigin kostnað. Það er verið að falast eftir stuðningi ríkis og sveitarfélaga til að koma þessum framkvæmdum í farveg. Ég verð illa svikinn ef þessir aðilar munu ekki einnig leita eftir því að ríki og eða sveitarfélög komi að fjármögnuninni á þeim. VG og Samfylkingin eru tilbúin að slá út af borðinu samning við eitt af bestu álfyrirtækjum heimsins, Alcoa, fyrir hugsanlega eitthvað annað, eitthvað sem er algjörlega óskilgreint og enginn veit hver stendur að baki eða heldur með hvaða hætti á að fjármagna fyrirhugaðar framkvæmdir. Er hægt að byggja framtíð samfélags á „einhverju öðru“?

 

Verndun eða friðun er ein leið sem hægt er að fara, en fyrir slíka nýtingu þarf væntanlega að greiða og eru landsmenn tilbúnir að taka þá fjármuni úr ríkissjóði?

Hækka skatta og aðrar álögur? Nei, ég held ekki og því tel ég eðlilegt að ríkisstjórnin fylgi þeim áformum sínum að leyfa heimamönnum að vinna að þeim málum er varða afkomu þeirra og framtíð. Það má ljóst vera að heimamenn geta tryggt verndun og nýtingu auðlinda í sinni heimabyggð svo sómi sé að.

 

Hér eru allir íbúar náttúrusinnar sem er umhugað um umhverfi sitt. Það ætti því ekki að koma þingmönnum á óvart að hér í Þingeyjarsýslum er meiri hiti en sá er einskorðast við jarðhita, því hér er fólki heitt í hamsi og finnst eðlilega það hafa verið svikið fyrir „eitthvað annað“.

 

Höfundur er fjármálastjóri og staðgengill sveitarstjóra Norðurþings.

 

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744