Afburða góð verkun hjá Norðlenska á HúsavíkAlmennt - - Lestrar 325
Fram kemur á fréttasíðu Þingeyjarsveitar í dag að verkun hafi verið afburða góð í sláturhúsi Norðlenska á Húsavík það sem af er sláturtíð. Sem dæmi má nefna að sl. miðvikudag voru gallar einungis 0,36 % sem er nýtt met, þ.e.a.s einungis fundust gallar á 7 skrokkum af 1941 sem slátrað var þann daginn. Þetta verður að teljast glæsilegt og gallatíðni þessa vikuna fór hæst í 0,58 %.
"Ljóst má vera að við höfum á að skipa góðum hóp
sem svo sannanlega kann til verka" sagði Sigmundur Hreiðarsson vinnslustjóri Norðlenska við tíðindamann fréttasíðunnar og bætti við
að þegar búið var að slátra 47.163 dilkum var meðalvigt 16,21 kg en var í heildina í fyrra 16,08 kg. Fita er núna 6,33 en var í
heildina í fyrra 6,34, gerðin núna er 8,23 en var í heildina í fyrra 8,31.
Þá hefur slátursala hjá Norðlenska á Húsavík gengið mjög vel undir dyggri stjórn Elínar Kjartansdóttur frá Norðurhlíð en henni lauk í gær.
Hermann Aðalsteinsson í Lyngbrekku tók meðfylgjandi myndir og hér er Grímur Vilhjálmsson bóndi á Rauðá að koma með lömb sín til slátrunar. Fleiri myndir Hermanns úr Norðlenska er hægt að skoða hér