Aðventu- og jólahugleiðingar úr Tedda Stormstræti

Anna Guðrún Garðarsdóttir sem lengi hefur búið í Þýskalandi með Helga sínum og börnum skrifaði skemmtilegar aðventu- og jólahugleiðingar á Fésbókarsíðu

Anna Guðrún og Helgi með börnum sínum.
Anna Guðrún og Helgi með börnum sínum.

Anna Guðrún Garðarsdóttir sem lengi hefur búið í Þýskalandi með Helga sínum og börnum skrifaði skemmtilegar aðventu- og jólahugleiðingar á Fésbókarsíðu sína um helgina.

Anna Guðrún veitti 640.is góðfúslegt leyfi til að birta hana og hér kemur hún:

Nú er aðventan gengin í garð; biðin eftir jólunum. Í bernskuminningunum var þetta undursamlegur tími blandinn eftirvæntingu og óþolinmæði. Nú er þessi tími hjá mér líka blandinn eftirvæntingu en minni óþolinmæði. Nú er óþolinmæðin helst fólgin í því að geta varla beðið eftir að afkomendurnir komi heim um jólin.

Og þá rifjast upp hvað það var undur gott að koma heim til Húsavíkur um jólin. Einu sinni las ég að tvennt ætti maður að gefa börnum sínum og það væru rætur og vængir.

Það veit ég að rétt. Það er góð tilfinning að koma heim til Húsavíkur og finna í hjarta sínu í hvert sinn að hér á maður heima.

Í bernskunni var aðventan annasöm. Mamma saumaði fyrir hver jól fallega jólakjóla á okkur systur og jólaskórnir frá því fyrra dugðu enn og voru pússaðir svo að þeir gljáðu í jólaljósunum. Þegar þeir voru orðnir of litlir voru keyptir nýir, vel við vöxt svo þeir myndu duga næstu jól líka.

Laufabrauðsgerð var stórt verkefni í svo stórri fjölskyldu sem mín fjölskylda er og iðulega tóku þrjú heimili úr stórfjölskyldunni sig saman og svo næstu þrjú á öðrum degi. Þegar við krakkarnir vorum orðin nógu stór til að koma að gagni fórum við í laufabrauðsgerð á öllum heimilunum og náðum þannig mörgum laufabrauðsdögum. Í byrjum fengum við bara að pikka kökur sem höfðu þegar verið skornar listilega út, síðan hækkuðum við í tign og máttum líka fletta og svo var okkur loks treyst til að skera líka. Það var mikil ábyrgð því ekki mátti skemma kökurnar. Ég var rólegt barn og vandvirkt og lærði ung að skera fallegt mynstur með vasahníf. Mikið yndi hafði ég að sitja hjá Öddu í Sólbakka og horfa á hana skera undurfalleg mynstur í kökurnar en engan hef ég séð gera fallegri laufabrauðskökur.

Það tilheyrði líka jólaundirbúningnum í bernsku minni að amma í Löngu sendi okkur krakkana með Þrif-brúsa, gólfrýju og bekkjarýjur og bita af feitu hangikjöti upp í Hábæ til Áka Bald. Þar þrifum við Hábæ í hólf og gólf, settum jóladúk á borðið og hjálpuðum Áka að setja seríu í glugga. Svo suðum við hangikjötið þar því amma lagði áherslu á að Áki fengi líka ilminn af jólhangikjöti í sinn bæ.

Fjölskyldan í Tedda Stormstræti

Fjölskyldan í Tedda Stormstræti: fv. Helgi Flóvent, Inga Steinun, Anna Guðrún, Hanna Sigrún og Helgi.

Nú er langt síðan við áttum heima á Húsavík en fyrir okkur Helga er mikilvægt að halda í hefðirnar frá bernskuheimilum okkar og nú finnum við okkur til mikillar gleði að þær eru orðnar börnum okkar ómissandi.

Hér í Tedda-Storm-Stræti er laufabrauðið gert rétt fyrir jólin þegar börnin eru komin heim. Það gerum við eins og í gamla daga; hnoðum deig, breiðum út kökurnar og svo koma vinir til að hjálpa við að skera og steikja. Við höfum að vísu laufabrauðshjól til að skera mynstur en ég nota alltaf vasahníf eins og ég lærði af Öddu í Sólbakka og miðjudóttirin gerir það líka. Hún er lík mömmu sinni á meðan hin hafa meira af orkunni úr Grafarbakka og eru ekki mikið fyrir dútl og dund.

Skötuveisla í Tedda Stormstræti

Við erum líka með mikla skötuveislu á Þorláksmessu þar sem vinir okkar mæta og oft eru það um 50 manns og glatt á hjalla.

                                         Skötuveisla

Það er jafnan glatt á hjalla í skötuveislunni eins og sjá má á þessum þessum þýsku vinum fjölskyldunnar.

                                          Skötuveisla

Og þessum portugölsku einnig.

                                         Skötuveisla

Tengdasynirnir Ómar Jónsson og Guðmundur Smári Guðmundsson.

Helgi Helgason

Húsbóndinn færir skötuna upp á fat.

Aðfangadagur fylgir líka hefðunum frá bernskujólum okkar. Klukkan sex á aðfangadagskvöld hringjum við jólin inn. Við getum ekki notast við Ríkisútvarpið í gegnum internet vegna tímamismunar og spilum þess vegna jólamessuna frá 1995 af segulbandsspólu.

Jólamaturinn er á íslenska vísu og möndlugrauturinn á eftir ómissandi. Oft hafa komið tillögur um breytingar á fyrirkomulagi við eftirréttinn en það kemur ekki til greina. Það er grjónagrautur á eftir. Og hann er borinn fram í risastórri grautarskál og einhvers staðar í þessari skál er lítil mandla. Og það er barist um möndluna þar til allir eru orðnir kófsveittir og komnir með svima af ofáti en enginn gefst upp. Þar koma Grafarbakkagenin sér vel en þar ber oft keppnisskapið skynsemina ofurliði.

Og aldrei hefur heldur verið hlustað á tillögur um að opna bara einn pakka fyrr.

Gengið í kringum jólatréð

Og þegar við göngum í kringum jólatréið þá syngjum við alla efnisskrána eins og afi í Grafarbakka gerði og engu er sleppt. Adam, Gunna á nýju skónum, Einiberjarunn og Gekk ég yfir sjó og land er allt tekið af krafti og þegar kemur að erindinu með "Ég á heima á Íslandi" syngjum við óvenju hátt og allir hugsa til afa í Grafarbakka sem söng það alltaf með sérstökum hljóm í röddinni.

Gengið í kringum jólatréð

Þegar búið er að opna alla pakkana og ró færist yfir fjölskylduna þá ber ég fram heitt súkkulaði með rjóma og með því rjómatertu eins og var hjá ömmu í Löngu og rjómakollur eins og hjá Jóhönnu í Grafarbakka.

Og ekki eitt einasta jólakort er opnað fyrr en seint á aðfangadagskvöld þegar allt er komið í ró. Við setjumst við arininn og húsbóndinn les kortin upphátt og allir fá að skoða myndirnar á kortunum og við undrumst hvað börnin á myndunum eru orðin stór og gleðjumst ef ný hafa bæst í hópinn.

Núna þegar okkar börn eru orðin stór og komin sjálf með lífsförunaut og jafnvel eigin börn þá finnum við vel hversu þessar hefðir eru þeim dýrmætar og þau taka ekki í mál að breyta neinu.

Þau eiga nefnilega rætur eins og við þrátt fyrir að fljúga á vængjum sínum um víða veröld.

Hjónakornin

Hjónakornin í Tedda Stormstræti, Helgi Helgason og Anna Guðrún Garðarsdóttir.

Barnabörnin

Gunnar Flóvent og Helgi Smári synir Hönnu Sigrúnar og Guðmundar Smára.

Með því að smella á myndirnar má fletta þeim og skoða í stærri upplausn.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744