Á sjöunda tug tóku þátt í Kvennahlaupinu á HúsavíkÍþróttir - - Lestrar 461
Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fór fram í tuttugasta og sjöunda sinn í gær.
Góð þátttaka var í hlaupinu en gera má ráð fyrir að um 12.000 konur hafi tekið þátt á yfir 80 stöðum hérlendis og erlendis.
Hér á Húsavík tóku 60-70 ömmur, mömmur, dætur og vinkonur sig til og hreyfðu sig og skemmtu sér saman. Hægviðri var en þokuloft.
Fyrir hlaupið stjórnaði Hrefna Regína Gunnarsdóttir sjúkraþjálfari léttri upphitun við sundlaugina þaðan sem hlaupið var, en boðið var upp á bæði 2,5 km og 5 km hlaupaleiðir.
Þó svo að hlaupið hafi í upphafi verið ætlað konum eins og nafn þess gefur til kynna þá hafa karlmenn alltaf verið velkomnir í hlaupið og í ár hlupu tveir feður með dætrum sínum hér á Húsavík.
Hér koma nokkrar myndir úr hlaupinu og með því að smella á þær er hægt að fletta þeim og skoða í stærri upplausn.