8. mars er alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti

Í dag, 8. mars 2021, er alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti.

Í dag, 8. mars 2021, er alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti. 

Þessi sérstaki dagur var fyrst haldinn hátíðlegur meðal sósíalískra kvenna í Danmörku, Þýskalandi, Austurríki og Sviss þann 19. mars árið 1911.

Samkvæmt upplýsingum á vef Kvennasögusafns Íslands er talið að sennilega hafi þessa dags verið fyrst minnst á Íslandi árið 1932.

Á vefsíðu Kvennasögusafnins má lesa að frá árinu 1984 hafi félagið MFÍK (Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna) staðið fyrir almennum fundi 8. mars, ásamt fjölda annarra samtaka og stéttarfélaga. Fleiri samtök á Íslandi hófu að minnast 8. mars á 10. áratugnum með sérstökum hætti. Samtökin Stígamót voru stofnuð 8. mars 1990. Unifem á Íslandi hefur verið með fundi og á Akureyri hafa samtök minnst dagsins frá árinu 1992.

Nánar má lesa um tilurð og þróun þessa alþjóðadags á vefslóðinni: 8. mars - Alþjóðlegur baráttudagur kvenna - Kvennasögusafn (kvennasogusafn.is).

Soroptimistar eru alþjóðleg samtök kvenna sem láta sig málefni kvenna og stúlkna varða og vilja stuðla að jafnrétti og friði öllum til handa. 

Soroptimistar um allan heim vekja nú sérstaka athygli á 8. mars 2021, alþjóðlegum baráttudegi kvenna, og kjósa að vinna samkvæmt kjörorðinu “Veljum að vaxa“, einnig undir myllumerkjunum:  #VeljumAdVaxa, #Choose to Challenge. 

Við systur í Soroptimistaklúbbi Húsavíkur og nágrennis teljum að markmið soroptimista um allan heim séu mjög í anda allra þeirra sem vilja halda þessum alþjóðlega baráttudegi á lofti. ,,Veljum að vaxa“ í baráttu fyrir betra lífi, konum og stúlkum til handa, sem og öðrum jarðarbúum. Það getum við m. a. gert með því að sýna í verki og hafa í heiðri eftirfarandi markmið soroptimista:

Að vinna að bættri stöðu kvenna. 

Að gera háar kröfur til siðgæðis. 

Að vinna að mannréttindum öllum til handa. 

Að vinna að jafnrétti, framförum og friði, með alþjóðlegri vináttu og skilningi.

Með baráttukveðju frá systrum í Soroptimistaklúbbi Húsavíkur og nágrennis


  • Steinsteypir

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744