Mörg alvarleg teikn eru á lofti í lífríki Mývatns og Laxár

Á aðalfundi Veiðifélags Laxár og Krákár þann 30. apríl 2016 komu fram þungar áhyggjur félagsmanna af ástandinu í lífríki Laxár og Mývatns.

Mörg alvarleg teikn eru á lofti í lífríki Mývatns og Laxár
Fréttatilkynning - - Lestrar 415

Mývatn. Ljósmynd Siguður Stein.
Mývatn. Ljósmynd Siguður Stein.

Á aðalfundi Veiðifélags Laxár og Krákár þann 30. apríl 2016 komu fram þungar áhyggjur félagsmanna af ástandinu í lífríki Laxár og Mývatns.

Mörg alvarleg teikn eru á lofti í lífríki Mývatns og Laxár og fara félagsmenn þess á leit að æðstu yfirvöld umhverfis-, atvinnu-, og fjármála í landinu beiti sér fyrir því að rannsóknir á svæðinu verði efldar og stuðli að því að gripið verði til þeirra aðgerða sem að gagni mega koma. 

Eftirfarandi ályktun fundarins var samþykkt samhljóða:

Aðalfundur Veiðifélags Laxár og Krákár, haldinn í Rauðhólum í Laxárdal, 30. apríl 2016 skorar á yfirvöld umhverfismála, bæði á landsvísu og á sveitarstjórnarstigi að bregðast við því alvarlega ástandi sem lýst hefur verið í lífríki Laxár og Mývatns í Suður-Þingeyjarsýslu.

Lífríki Mývatns og Laxár hefur verið undir miklu álagi undanfarna áratugi og svæðið er á rauðum lista Umhverfisstofnunar fjórða árið í röð. Kúluskíturinn, sem aðeins finnst á einum öðrum stað í heiminum, er horfinn og botni Mývatns má líkja við uppblásinn eyðisand. Bleikjan hefur verið nánast friðuð í nokkur ár til að koma í veg fyrir útrýmingu. Hornsílastofninn er í sögulegri lægð. Við rannsóknir síðasta sumar veiddust 319 síli en sambærilegar rannsóknir síðustu 25 ár hafa skilað 3.000-14.000 sílum. Hrunið í hornsílastofninum bitnar illa á urriðanum bæði í Laxá og vatninu. Draga verður verulega úr veiðum á honum í Mývatni í sumar. Bakteríugróður, sem Mývetningar kalla leirlos, fer vaxandi og hefur síðustu tvö sumur verið með fádæmum og langt yfir þeim heilsuverndarmörkum sem Alþjóða heilbrigðismálastofnunin miðar við í vötnum þar sem útivist er stunduð. Leirlos í svo miklu magni hefur mjög neikvæð áhrif á lífríki Laxár allt til sjávar, sem og upplifun veiðimanna á svæðinu.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744