Vetrarhátíðin við Mývatn

Hin einstaka Vetrarhátíð við Mývatn verður haldin dagana 4.-13. mars. Hátíðin hefur skipað sér sess sem einn skemmtilegasti vetrarviðburður Norðurlands

Vetrarhátíðin við Mývatn
Fréttatilkynning - - Lestrar 110

Hin einstaka Vetrarhátíð við Mývatn verður haldin dagana 4.-13. mars.

Hátíðin hefur skipað sér sess sem einn skemmtilegasti vetrarviðburður Norðurlands þar sem bæði hefðbundnar og óhefðbundnar vetraríþróttir eru stundaðar í stórbrotinni náttúrufegurð Mývatnssveitar. 

Vegna sameiningar Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar hefur hátíðarsvæðið stækkað til muna þar sem hátíðin dreifist nú yfir bæði sveitarfélögin. Það er óhætt að segja að viðburðum hafi stórfjölgað frá því í fyrra og að dagskráin hafi aldrei verið þéttari - né glæsilegri! Ævintýra og skemmtana þyrstir geta því fagnað nýjum takmarkalausum veruleika með stæl!

Meðal viðburða er Íslandsmeistaramót Sleðahundaklúbbs Íslands á hundasleða og „skijoring“, hestamótið Mývatn Open sem fer fram á ísilögðu Mývatni, Snocross mót og Mývatnssleðinn þar sem keppendur keppa í hinum ýmsu brautum/þrautum á heimasmíðuðum sleðum.

Heimamenn kenna að vanda þjóðaríþrótt sína, dorgveiði. Það hefur verið einn vinsælasti viðburðurinn síðustu ár og fleiri hundruð manns skemmt sér við þessa töfrandi iðju. Mikil áhersla verður lögð á viðburði fyrir yngri kynslóðina og fjölskyldur og bænda- og handverksmarkaðurinn verður á sínum stað. Skíðagönguspor verða troðin vítt og breytt um svæðið og skíðalyftan í Kröflu verður opin.

Heima milli helga er dagskrá sem miðar að heimamönnum og er nýjung í ár enda kjörið að þjappa fólki saman fyrir sameiningu. Þeim gefst tækifæri til þess að fara á frí skíðagöngunámskeið, hittast í félagsvist, í sundpartýi eða á klifurkvöldi svo fátt eitt sé nefnt.

Ferðaþjónustan á svæðinu býður upp á ýmis konar tilboð á gistingu, mat og afþreyingu og fjöldi tónlistarviðburða verður í boði. Fólk er hvatt til þess að taka með sér gönguskó og skíði og njóta náttúrunnar og alls þess sem svæðið hefur uppá að bjóða.

SKOÐAÐU DAGSKRÁNA HÉR!

  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744