Verslun aftur opnuð á KópskeriAlmennt - - Lestrar 208
Eins og fram kom á 640.is á dögunum var versluninni Bakka á Kópaskerilokað þegar verslunareigendurnir fluttu af staðnum. En nú hefur verslunin Búðin verið opnuð þar eftir að hjónin Ágúst Þormar Jónsson og Aðalbjörg S. Sigvaldadóttir hófu eigin rekstur og tóku verslunarhúsnæðið á leigu.
En hvað kom þeim til að fara út í verslunarekstur sem þennan ?
„Ég hef starfað sem kjötiðnaðarmaður í mörg ár og fannst vera kominn tími til að breyta til og konan mín er leikskólakennari. Hún hefur starfað við skólann og leikskólann hér á Kópaskeri og mun gera það áfram ásamt því að aðstoða mig eftir þörfum hér í búðinni. Við gerðum rekstraráætlun og sáum að það mætti hafa ágætis afkomu af svona rekstri og þar sem við erum bæði jákvæð og bjartsýn að eðlisfari ákváðum við að slá til og leigðum húsnæðið til þriggja ára og svo sjáum við til“. Sagði Ágúst og bætti við að verslunin verði rekin með svipuðu sniði og hjá fyrri eigendum til að byrja með. En þau hjónin hafa þó hug á að fara eitthvað út í veitingasölu og vona að það verði í byrjun næsta árs.
Ágúst vildi að lokum koma á framfæri kærum þökkum til þeirra sem lagt hafa þeim lið og hvatt áfram með jákvæðni og bjartsýni.