Þjóðhátíð á Húsavík – þriðjudaginn 2. September kl. 17:30Aðsent efni - - Lestrar 280
Þjóðhátíð á Húsavík – þriðjudaginn 2. September kl. 17:30
„ Slagur um sæti í Landsbankadeild kvenna“
Nú liggur fyrir að stelpurnar í meistaraflokki Völsungs munu enn og aftur keppa um laust sæti í Landsbakadeildinni. Baráttan er búin að vera mikil í sumar á milli tveggja liða í B – riðli. Völsungsstelpur höfðu betur í viðureignum sínum við Hött frá Egillstöðum, en þessi tvö lið báru af öðrum í riðlinum og því ljóst að Völsungsstelpur keppa við lið GRV, sem hafnaði í 2. sæti A – riðils. Leikið er að heiman og heima. Fyrri leikurinn fer fram í Grindavík á morgun laugardag en síðari leikurinn fer fram á Húsavíkurvelli, þriðjudaginn 2. september n.k. og hefst hann kl. 17:30
Þetta er í þriðja skiptið sem kvennalið Völsungs kemst í úrslitakeppnina en stelpurnar voru mjög nærri því að tryggja sér keppnisrétt í Landsbankadeildinni í fyrra eftir frábært tímabil. Tímabilið í ár er ekkert frábrugðið og því mikilvægt að þær taki reynslu fyrri ára með sér í úrslitaleikina sem framundan eru.
Á tímamótum sem þessum er mikilvægt að leikmenn finni stuðning samfélagsins og því er vel við hæfi að íbúar Norðurþings fjölmenni í „brekkuna“ til að hvetja þetta baráttuglaða lið áfram. Ég veit að þetta verður erfitt verkefni fyrir stelpurnar en ef þessum frábæru leikmönnum tekst að stilla strengi sína saman og spila af krafti frá fyrstu mínútu mun þeim takast að sýna sitt besta og klára þetta verkefni með stæl. Stelpurnar hafa svo sannarlega sýnt það undanfarin ár að þær hafa alla burði og getu til að spila knattspyrnu á meðal þeirra bestu.
Í síðustu viku gaf Hr. Ólafur Ragnar Grímsson íslensku þjóðinni frí frá vinnu eftir leik Íslands og Spánverja í handbolta á Ólympíuleikunum í Peking. Einnig gaf Hr. Ólafur Ragnar Grímsson fyrirmæli um að haldin skyldi þjóðhátíð á Íslandi. Ég hef því miður ekki slíkt vald en biðla engu að síður til ykkar, íbúar þessa samfélags, að mynda með okkur sannkallaða þjóðhátíðarstemningu á Húsavíkurvelli n.k. þriðjudag. En eins og Dorrit sagði þá er Ísland „stórasta“ land í heimi, og leyfi ég mér að nota hennar einstaka orðatiltæki þegar ég segi að Völsungur er „stórasta“ lið á Íslandi.
Svo mikið er víst að getan, viljinn og áræðið er til staðar hjá liðinu. Virkjum þennan kraft þeirra með glóandi þjóðhátíðarneista og styðjum þær til sigurs.
Mætum, hvetjum og skemmtun okkur saman – því nú ætlum við alla leið.
Það mættu um 500 manns í fyrra – sláum nýtt met í ár.
Við ykkur leikmenn meistaraflokks kvenna vil ég segja að þegar mikið er undir getur margt truflað t.a.m. væntngar og spenna. Gleymið ekki hver styrkleiki ykkar er. Gleymið heldur ekki hver hæfni ykkar og geta er. Þið hafið undirbúið ykkur vel undir þessa leiki og hafið allt sem þarf til að klára þá. En hver svo sem niðurstaðan verður að leikslokum bið ég ykkur stelpur að spila með hjartanu og njóta þessara leikja.
- Þetta er ykkar tími - þetta er ykkar stund - njótið og hafið gaman af.
Að lokum óska ég ykkur stelpur til hamingju með árangurinn – þið hafið verið hreint frábærar.
Guðbjartur Ellert Jónsson
Formaður mfl.ráðs Völsungs.