Þingeyingar-Sameinum krafta

Það hefur varla farið fram hjá nokkrum manni að nokkuð hefur verið sótt að okkur Þingeyingum mörg síðustu ár. Þá er ekki úr vegi að líta til baka og skoða

Þingeyingar-Sameinum krafta
Aðsent efni - - Lestrar 533

Sigurgeir Höskuldsson og Jón Helgi Björnsson.
Sigurgeir Höskuldsson og Jón Helgi Björnsson.

Það hefur varla farið fram hjá nokkrum manni að nokkuð hefur verið sótt að okkur Þingeyingum mörg síðustu ár. Þá er ekki úr vegi að líta til baka og skoða hvort það sé eitthvað sem við getum gert með öðrum hætti til þess að efla innviði samfélagsins  og koma fram af meiri styrk . Við þurfum að sameina krafta okkar.

 

Eins og fram kemur í nýútgefinni skýrslu Þekkingarsetursins hefur íbúaþróun á svæðinu verið neikvæð um tæp 10% frá árinu 2002 á meðan hún er jákvæð um rúm 10% á landsvísu. Ef aldursdreifing svæðanna er skoðuð nánar, sést að stór skörð eru í henni hjá börnum sem eru framtíðaríbúar svæðanna og hjá fólki á miðjum aldri sem öllu jafna er tekjuhæsti hópurinn og að  því leyti mikilvægur fyrir sveitarfélögin.

Hrikt hefur í grunnstoðum atvinnulífsins. Fyrirtæki hafa verið lögð niður eða flutt í burtu. Fjölbreytileiki hefur minnkað. Stjórnunarstöðum hefur fækkað og nú er sótt að okkur með fækkun opinbera starfa. Láum við engum sem hugsar núna, hvað næst?

Frá fornu hafa Þingeyingar verið þekktir fyrir djörfung og dug. Fyrirrennarar okkar voru frumkvöðlar á mörgum sviðum s.s.  menningarmálum, atvinnumálum og ekki síst hagsmunagæslu svæðisins. Ein meginástæðan fyrir velgengni fyrri tíma var að menn sýndu samstöðu og komu fram sem heild. Það er ekki síst vegna þessarar áræðni sem Þingeyingar hafa verið sagði loftmiklir. Loftþrýstingurinn hefur minnkað og nú þarf að ná honum upp aftur.

Við höfum allt til að byggja upp öflugra samfélag með fjölbreyttum atvinnutækifærum. Við höfum mannauð, landnæði, orku, hafnir og flugvelli. Á sínum tíma nýtti Kísiliðjan alla þessa styrki okkar. Áhrifasvæði hennar náði yfir marga hreppi.  Kaupfélagið var gott dæmi um sameiningu krafta og nýtingu auðlinda til sjávar og sveita. Þar skiptu hreppamörk engu máli.

Með brotthvarfi þessara félaga sem unnu þvert á sveitarfélög, höfum við kannski skriðið inn í skel okkar til varnar okkar nærsamfélagi. Við erum stundum að verja  sérhagsmuni, sjáum ekki lengur heildarmyndina. Erum kannski ekki nógu samtaka um þá kröfu að greitt sé eðlilegt afgjald af orkuauðlindum til sveitarfélaganna, stundum eru skilaboðin ekki nógu skýr frá Þingeyingum um að orka í Þingeyjarsýslum verði einungis nýtt þar.

Flest okkar sem búum á þessu svæði eigum fjölskyldur, ættingja og vini í sveitarfélögunum í kringum okkur. Menning okkar er sú saman. Við vinnum saman, við förum saman á þorrablót, við hittumst í réttum, við erum saman í kórum og leikhópum. Við komum saman við fermingar, giftingar og jarðafarir. Af hverju erum við aðskilin í sveitarfélögunum, hagsmunir okkar eru þeir sömu - við erum eitt.

Til skoðunar er hjá stjórnvöldum að  fækka sveitarfélögum enn frekar með sameiningu. Norðurþing hefur ásamt öðrum, skipað fulltrúa í nefnd til að skoða sameiningarkosti. Það er skoðun okkar að hagsmunum Þingeyinga sé betur borgið í einu sameiginlegu sveitarfélagi. Að því viljum við stefna. Með því sameinum við krafta okkar og komum fram sem ein sterk heild.

Jón Helgi Björnsson og Sigurgeir Höskuldsson skipa 1. og 3. sæti á D-lista í Norðurþingi.

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744