SundlaugarrennibrautarsjóðurAðsent efni - - Lestrar 563
Sundlaugarrennibrautarsjóður
Ágætu vinir!
Þar sem ég ætla að útskrifast sem stúdent frá Laugum þann 23. maí næstkomandi og fagna 40 ára afmælinu mínu um leið, langar mig að láta þann „gamla“ draum minn rætast að stofna sjóð sem renna skuli til fjármögnunar á vatnsrennibraut í nýju sundlauginni okkar að Laugum. Mig langar að sýna starfsfólki og nemendum Laugaskóla þakklætisvott fyrir ánægjuleg samskipti með því að stofna þennan sjóð. Rennibrautin mun síðan nýtast nemendum og íbúum Þingeyjarsveitar og nærsveita og verða sterkt aðdráttarafl í ferðaþjónustu sem eflist sífellt.
Í gegnum tíðina hef ég kynnst fjölda fólks hvaðanæva að úr Þingeyjarsýslu sem allt hefur góðar taugar til Laugaskóla, ýmist verið þar sjálft, sótt sér maka þangað, unnið þar, og þá ekki síst við eða vegna Laugaskóla, svo eitthvað sé nefnt. Og iðulega tala Laugamenn um að fara heim að Laugum! þegar þeir hittast.
Ég hvet eldri sem yngri og núverandi sem fyrrverandi nemendur og starfsmenn við Laugaskóla, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga til að sýna þessum góða sjóð velvild og láta eitthvað renna til hans því margt smátt gerir eitt stórt. Það sýndi sig árið 2006 fyrir unglingalandsmót að við getum svo sannarlega unnið saman þegar unmennafélagsandinn vakir yfir.
Reikningurinn hefur verið stofnaður og er að sjálfsögðu í „Sparisjóði Íslands“, sem sagt: Sparisjóði Suður-Þingeyinga: Banki: 1110. Höfuðbók: 05. Reikningsnúmer: 402638. Kennitala: 040269-4609.
Með kveðju,
Elínborg Benediktsdóttir (betur þekkt sem Hár-Ellý)