Stéttarfélögin álykta.Aðsent efni - - Lestrar 215
Ályktun.
Framsýn-stéttarfélag, Starfsmannafélag Húsavíkur og Þingiðn, félag iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum skora á ríkistjórn Íslands að vinna heilshugar að framgangi þess að álver rísi á Bakka við Húsavík enda reynist það hagkvæmt og í sátt við umhverfið.
Því miður hefur sundurlyndi ráðherra innan ríkistjórnarinnar og óheppilegar yfirlýsingar þeirra tafið verulega fyrir framgangi verkefnisins. Nægir þar að nefna ákvörðun umhverfisráðherra um að framkvæmdin þurfi í sameiginlegt umhverfismat , aðgerð sem á sér ekki hliðstæðu á Íslandi. Ákvörðun ráðherra setur verkefnið í mikið uppnám og ýtir undir frekari fólksflótta af svæðinu. Heimamenn hafa fram að þessu kappkostað að eiga gott samstarf við stjórnvöld, opinberar stofnanir og samstarfsaðila varðandi orkuöflun og uppbyggingu álversins. Gjörningur ráðherra er því óskiljanlegur.
Þá er niðurstaða borgarafundar sem umhverfisráðherra stóð fyrir á Húsavík í gær mikil vonbrigði þar sem ráðherra kom sér hjá því að svara spurningum er varða framgang verkefnisins á Bakka. Ráðherra skuldar því heimamönnum, nágrannabyggðalögum og fjárfestum svör við lykilspurningum. Fáist ekki leyfi til að halda áfram með rannsóknarholur á Þeistareykjarsvæðinu næsta sumar mun ráðherra setja verkefnið í mikið uppnám.
Því miður hafa Þingeyingar búið við viðvarandi fólksfækkun á svæðinu sem rekja má að stórum hluta til þess að fjarað hefur undan atvinnulífinu s.s. í landbúnaði, sjávarútvegi og starfsgreinum sem tengjast þjónustu við þessar atvinnugreinar. Þrátt fyrir að heimamenn hafi unnið ötullega að því að skapa aukin störf á svæðinu hefur það ekki dugað til. Þess vegna er mikilvægt að stjórnvöld leggist á árarnar með heimamönnum og vinni að eflingu byggðar og atvinnulífs með því við að styðja uppbyggingu álvers á Bakka og hætti að þvælast fyrir með óvönduðum vinnubrögðum.