Skipulag Húsavíkur og nágrennisAðsent efni - - Lestrar 547
Í þessari grein og nokkrum öðrum sem munu birtast á næstu vikum er ætlun okkar að varpa fram hugleiðingum um þá þætti aðalskipulagsins sem tengjast Húsavík og nánasta umhverfi kaupstaðarins. Í þessari fyrstu grein ætlum við að beina sjónum okkar að skipulagi almennt og iðnaðarsvæðinu á Bakka. Í næstu greinum munum við fjalla um svæði fyrir íbúabyggð, miðbæinn og hafnarsvæðið.
Á yfirstandandi kjörtímabili hefur verið unnið að nýju aðalskipulagi fyrir sveitarfélagið Norðurþing. Þeirri vinnu er um það bil að ljúka af hálfu sveitarfélagsins og hefur tillaga að nýju aðalskipulagi verið send Skipulagsstofnun til umsagnar eins og Skipulags- og byggingalög gera ráð fyrir. Því fer að líða að þeim tíma þar sem íbúum Norðurþings gefst tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum um aðalskipulag sveitarfélagsins.
Í febrúarmánuði stóð Norðurþing fyrir kynningu á skipulagstillögunni og er sú kynning kveikjan að þessum skrifum. Atriði sem komu fram á fundinum vöktu okkur til umhugsunar og viljum kasta hugleiðingum okkar út í umræðuna áður en skipulagið verður afgreitt og um leið hvetja aðra íbúa til að mynda sér skoðun á skipulagstillögunni.
(Mynd 1 – Aðalskipulag Norðurþings 2009-2029 (Sjá www.nordurthing.is )
Grundvöllur skipulagsáætlana
Sveitafélögum ber skylda til að vinna skipulagsáætlanir skv. Skipulags- og byggingarlögum. Þar sem við búum í tiltölulega nýsameinuðu sveitarfélagi varð að vinna nýtt aðalskipulag fyrir það.
Markmið Skipulags- og byggingarlaga eru grundvöllur skipulagsvinnu sveitarfélaga. En þau eru;
· að þróun byggðar og landnotkunar á landinu öllu verði í samræmi við skipulagsáætlanir sem hafi efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi að leiðarljósi,
· að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja varðveislu náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi,
· að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulags- og byggingarmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi,
· að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi, endingu, útlit og hagkvæmni bygginga og annarra mannvirkja sé fullnægt.
Skipulagsáætlanir skiptast í megindráttum í þrennt; svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag.
Svæðisskipulag er skipulagsáætlun svæðis sem fleiri en eitt sveitarfélag eiga sameiginlega. Gott dæmi um svæði í okkar heimabyggð sem skipulagt er á þessum grundvelli er skipulag háhitasvæðanna í Bjarnarflagi, Kröflu, Gjástykki og Þeistareykjum en að því skipulagi koma þrjú sveitarfélög á svæðinu, Norðurþing, Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit.
Aðalskipulag er í raun stefna sveitarfélags varðandi landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, umhverfismál og þróun byggðar í sveitarfélaginu á minnst 12 ára tímabili og grundvöllur sá sem byggja skal á varðandi allar framkvæmdir innan sveitarfélagsins. Jafnframt leggur aðalskipulagið línurnar fyrir deiliskipulag svæða, þannig að deiliskipulag má ekki vera á skjön við ákvæði aðalskipulags.
Útgangspunktur aðalskipulags og iðnaðarsvæðið á Bakka
Í því aðalskiplagi sem nú liggur til umsagnar hjá Skipulagsstofnun er ljóst að skipulagið er hannað miðað við það að Alcoa reisi álver á Bakka. Hafnarframkvæmdir, vegstæði, línur og önnur mannvirki taka mið að því að álverið rísi auk þess sem það hefur áhrif á margt annað í aðalskipulaginu m.a.s. svæði til íbúðabyggðar taka mið af mögulegum álversframkvæmdum.
Undirritaðar efast mjög um þýðingu og áhrif aðalskipulagsins til framtíðar þegar útgangspunkturinn er stóriðja sem verður eða verður ekki. Hvað ef ekki verður af framkvæmdum, hvar stöndum við þá? Hvað ef jólasveininn hefði sýnt Bakka áhuga og viljað reisa þar leikfangaverksmiðju, neyðarlendingarbraut fyrir hreindýrasleðann (sem skv. NASA þarf að vera 4,5 km) auk þess að styðja við orkurannsóknir og virkjanaframkvæmdir á svæðinu þar sem mikla orku þarf til að knýja þess háttar verksmiðju? Hvernig hefði aðalskipulag sveitarfélagsins þá litið út?
Einhverjum kann að þykja fáranlegt að líkja starfsemi jólasveinsins við stóriðnað. Við tökum þetta dæmi ekki vegna þess að starfsemin sem slík skipti máli heldur vegna þeirrar staðreyndar að það er í raun álver Alcoa og þarfir þeirrar framkvæmdar sem mótar marga þætti skipulagsins. Hvort sem um er að ræða álver eða leikfangaverksmiðju jólasveinsins þá þarf að taka mið af fleiri þáttum og önnur atrið þurfa að hafa meira vægi í aðalskipulaginu en núverandi tillaga gerir ráð fyrir.
Með aðalskipulaginu fylgir ítarleg greinargerð sem unnin er af Alta. Greinargerðin er afar vel unnin. Horft er til þarfa og hagsmuna íbúa og fyrirtækja, tekið er tillit til þátta sem einkenna Húsavík og marka sérstöðu í útliti bæjarins og lögð er áhersla á að þeir komi einnig fram í framtíðarskipulagi. Hins vegar finnst okkur sú vinna sem lögð var í greinargerðina og undirbúning hennar ekki skila sér nægilega vel í þéttbýlisuppdrættinum fyrir Húsavík. Við munum nefna skýrari dæmi um þetta í næstu greinum.
Skipulags- og byggingarlög setja ákveðinn ramma sem þarf að fylgja en þar fyrir utan þarf að horfa til framtíðar og á mögulega þróun samfélagsins sem er innan þess svæðis sem aðalskipulagið tekur til. Einnig þarf skipulagið að bjóða upp á ákveðinn sveigjanleika sem gefur svigrúm til frumlegra og áhugaverðra lausna þegar kemur að deiliskipulagi svæða. Og að lokum þarf að horfa til fortíðar, skoða eldri áherslur í skipulagi, hverju þær hafa skilað og hvernig sagan hefur dæmt þær, því vilji, sýn og framkvæmdir núverandi kynslóða falla ekki alltaf komandi kynslóðum í geð. Sem dæmi um þetta má nefna að hópur 10-12 ára krakka tók þátt í Hugmyndasmiðju sl. sumar. Þar kom fram að krakkarnir hefðu heldur viljað að gömlu húsin, sem ýmist hafa verið flutt úr miðbænum og gerð upp á nýjum stað eða rifin, væru enn á sínum stað.
(Mynd 2 – Samsett mynd sem sýnir mögulega miðbæjarstemningu á Húsavík (Hugmyndasmiðjan.2009)
Eitt af því fyrsta sem stingur í augun þegar horft er á skipulagsuppdráttinn er þegar stærð og umfang iðnaðarsvæðisins á Bakka eru borin saman við bæjarstæðið. Iðnaðarsvæðið er umtalsvert stærra. Í skipulagsvinnunni var í upphafi gert ráð fyrir 250.000 tonna álveri og að iðnaðarlóðin væri 105 ha stór. Samkvæmt nýlegum breytingum á skipulagstillögunni stækkar iðnaðarlóðin til suðurs og verður við það 188 ha að stærð og miðast við 346.000 tonna álver. Þetta þýðir jafnframt að fjarlægð að núverandi íbúðarbyggð á Húsavík minnkar úr 2 km í 1,25 km. Þetta hefur þær afleiðingar að hægt er að stækka álverið úr 250.000 tonnum í 346.000 án annarrar umfjöllunar en að deiliskipuleggja svæðið.
Athygli vakti einnig að Bakkafjara, sem hefur náttúrverndargildi, er inni á fyrirhuguðu iðnaðarsvæði á Bakka. Gerðar voru athugasemdir við það á kynningarfundi fyrir íbúa sem haldinn var svo reikna má með að það verði lagað.
(Mynd 3 – Hafnarsvæði Húsavíkur, kirkjan og fjallið.)
Við getum ekki annað en velt fyrir okkur hvers konar framtíðarumhverfi við erum að búa okkur til ef allt fer sem horfir að ekkert verði álverið. Hver verða áhrifin á Húsavík sem er þekkt fyrir fallegt umhverfi, ferðaþjónustu, sjávarútveg og blómlegt mannlíf ef allt skipulag framtíðarinnar miðast við þarfir álvers eða verksmiðju jólasveinsins? Ættu ekki fyrrgreindu þættirnir að vera veigameiri, þó þannig að þeir skyggi ekki á hver annan og framþróun á öðrum sviðum verði möguleg?
Reikna má með að í lok þessa mánaðar eða byrjun þess næsta muni skipulagið verða kynnt íbúum. Í kjölfar þess fá þeir tækifæri til að gera athugasemdir við aðalskipulagið. Það er mikilvægt að íbúar séu vakandi og nýti þetta tækifæri til að hafa áhrif á framtíðarskipulag, útlit og notkun bæjarins síns.
Höfundar: Arnhildur Pálmadóttir, arkitekt FÍA, og Helena Eydís Ingólfsdóttir, MPA nemi í opinberri stjórnsýslu.