Samningarnefnd Framsýnar ályktarAðsent efni - - Lestrar 289
Samninganefnd Framsýnar kom saman í gærkvöldi til að ræða stöðu kjarasamninga Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga Alþýðusambandsins. Framsýn er aðili að samningnum. Samkvæmt honum áttu kauptaxtar félagsmanna Framsýnar sem starfa á almenna vinnumarkaðinum að hækka um 13.500 krónur þann 1. mars næstkomandi og önnur laun um 3,5%.
Ljóst er að allar samningsforsendur eru brostnar og því á verkafólk rétt á leiðréttingum til viðbótar umsömdum hækkunum og er forsendunefnd aðila samningsins með málið til skoðunar. Umræða hefur verið í fjölmiðlum um að Samtök atvinnulífsins ætli sér að segja upp samningnum og þá hefur verið haft eftir nokkrum verkalýðsforkólfum að rétt sé að bíða með endurskoðunina fram á árið meðan en aðrir telja eðlilegt að atvinnurekendur standi við gerða kjarasamninga og hækki laun samkvæmt því um næstu mánaðamót.
Á fundi Samninganefndar Framsýnar var heilshugar tekið undir þessa afstöðu sem sést best á því að í atkvæðagreiðslu sem fram fór á fundinum. Því var velt upp, hvort bíða ætti með endurskoðun samningsins eða ekki. Allir fundarmenn greiddu atkvæði með því að atvinnurekendum verði gert að standa við gerða kjarasamninga og laun hækki 1. mars næstkomandi. Tæplega 30 félagsmenn sitja í Samninganefnd Framsýnar frá flestum stærri vinnustöðum á félagssvæðinu og samykktu þeir eftirfarandi ályktun um málið:
„Samninganefnd Framsýnar- stéttarfélags efast ekki um að samningsforsendur kjarasamnings aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins séu brostnar.
Félagið gefur lítið fyrir þær sögusagnir að Samtök atvinnulífsins ætli að nýta sér ákvæði í samningum og segja þeim upp nú í febrúar. Full ástæða er til að vara við slíkum hræðsluáróðri. Félagsmenn Framsýnar samþykktu kjarasamninginn á sínum tíma með það í huga að samningsforsendur stæðu. Að mati Framsýnar voru endurskoðunarákvæðin ætluð til að tryggja frekari hækkanir ef forsendur brystu á samningstímanum. Ákvæðin áttu ekki með neinum hætti að leiða til skerðingar á kjörum verkafólks niður fyrir umsamdarhækkanir.
Svíki atvinnurekendur gerða kjarasamninga og segi þeim upp verða þeir ekki trúverðugir í augum launafólks og því ekki treystandi þegar kemur að næstu kjarasamningagerð.
Framsýn skorar á aðildarfélög Alþýðusambands Íslands að standa saman og verjast hugmyndum Samtaka atvinnulífsins um að berja niður samstöðu launafólks með uppsögn kjarasamninga. Því verður seint trúað að Verkalýðshreyfingin ætli að setja í bakkgírinn þegar fast er sótt að stöðu verkafólks og þar með heimilanna í landinu. Lifi búsáhaldabyltingin!". Segir í ályktun Framsýnar frá í gærkveldi.