Risinn er vaknaður á nýrri öld!!

Á níunda áratug síðustu aldar sté fram á grasið frábært knattspyrnulið sem spilaði undir merkjum UMFT. Heimavöllur liðsins var við Félagsheimilið

Risinn er vaknaður á nýrri öld!!
Aðsent efni - - Lestrar 334

Á níunda áratug síðustu aldar sté fram á grasið frábært knattspyrnulið sem spilaði undir merkjum UMFT. Heimavöllur liðsins var við Félagsheimilið Sólvang á Tjörnesi. Einstakur völlur sem hallaði í allar áttir og var auk þess stundum hálf ófær vegna grassprettu sem hentaði  klofstuttum leikmönnum afar illa. Völlurinn var oft eins og erfiður 18 holu golfvöllur með glompum og sandgryfjum. Í lok æfinga var ekki laust við að menn væru með snert af sjóriðu eftir hlaup og tæklingar út um allan völl.

Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum fékkst ekki leyfi frá KSÍ til að spila á vellinum. Hefði það fengist hefði liðið örugglega unnið alla sína leiki í Íslandsmótinu og rúmlega það. Þess í stað varð liðið að leita í næsta hérað,  það er Húsavíkur, til að fá löglegan völl til að spila á.

Strax frá fyrsta leik mátti sjá að þar var á ferð einstaklega létt leikandi lið sem átti framtíðina fyrir sér og yrði auk þess góð útflutningsvara. Þetta sáu kaupsýslumenn, bankastjórar og kaupmaðurinn á horninu. Enda fór það svo að slegist var um að kaupa búninga á liðið. Á búningunum stóð Export-Import samkvæmt beiðni aðalstyrktaraðilans. Það var ekki laust við að menn hefðu tröllatrú á liðinu sem yrði góð útflutningsvara enda liðið skipað frábærum leikmönnum, sem fáir höfðu fram að því tekið eftir. Nú var þeirra tími kominn, vel girtir og glæsilegir á velli. Tjörnes United er örugglega eina liðið í heiminum sem borið hefur þessi stóru orð, Export-Import.  Export stóð fyrir útflutning á leikmönnum frá Tjörnes og Import fyrir heimflutning á þeim eftir erfiða atvinnumennsku, jafnvel í Færeyjum. Knattspyrnulið Tjörnesinga var án efa langt á undan sinni samtíð og er það reyndar enn.

Nú hefur verið ákveðið að tjasla hópnum saman í tilefni að því að um 25 ár eru liðin síðan liðsmenn hnýttu skóþveng sinn og hófu sigurgöngu í neðri deildum íslandsmóts karla í knattspyrnu. Liðið mun koma saman á Mærudögum og leika við alla þekktustu og bestu leikmenn sem leikið hafa með félögum í Suður-Þingeyjarsýslu. Sjón er sögu ríkari. Leikurinn fer fram laugardaginn 26. júlí kl. 18:00 á Húsavíkurvelli. Þá má geta þess að leikmenn beggja liða lofa göngubolta sem gerir áhorfendum auðveldara með að fylgjast með leiknum. Hægt verður að fá eiginhandaráritanir hjá leikmönnum að leik loknum. Fyrir útsendara frá öðrum liðum er rétt að geta þess að leikmennirnir eru fráteknir og því ekki til sölu.

Nefndin

 

 

 

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744